144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svarið svo langt sem það nær, það fer yfir í síðasta kjörtímabil sem var mjög sérstakt kjörtímabil í sögu Íslands, efnahagskreppa, bankahrun og allt það, en margt var nú samt gert í húsnæðismálum á því kjörtímabili. En ég tók eftir því að hv. þingmaður gagnrýnir það hvað þetta kemur seint fram. Það er næstum því eitt ár, 11 mánuðir, frá því verkefnisstjórnin skilaði af sér þar til þetta frumvarp kemur fram. Jú, það eru margar greinar, en ég tel að ekki hafi þurft að taka heilt ár í að semja frumvarpið.

Virðulegi forseti. Næsta spurning mín til hv. þingmanns er — hv. þingmaður hefur oft komið hingað upp undir liðnum um störf þingsins og rætt um höfuðstólsleiðréttinguna margfrægu sem var lítil mús í raun og veru miðað við það sem lofað var. 300 milljörðum var lofað í það en lítil mús fæddist, sem varð 80 milljarðar, en sannarlega ber að þakka fyrir það. Það er betra en ekkert en langt frá því sem framsóknarmenn lofuðu.

Þá var líka talað um að höfuðstólsleiðréttingin næði ekki til leigufélaga og annarra, en boðað var að höfuðstólsleiðrétting til leiguíbúða, Félagsstofnunar stúdenta, Félagsbústaða og inn í leigukerfið kæmi síðar. Þess vegna er það seinni spurning mín til hv. þingmanns: Hvenær kemur höfuðstólsleiðréttingin fyrir leigufélögin?