144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér annað af tveimur frumvörpum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem fram eru komin um breytingar er varða húsnæðismál, og það sem við ræðum hér í dag er frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum.

Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum með að stóru málin eða breytingarnar sem hæstv. ráðherra hefur boðað og varða húsnæðismál séu ekki komin fram, þ.e. frumvarp til laga um húsnæðisbætur, sem kveður á um breytt fyrirkomulag á húsnæðisstuðningi hins opinbera, og frumvarp til laga um húsnæðismál þar sem fjallað er um endurskipulagningu húsnæðismála hvað varðar mótun húsnæðisstefnu, félagslegt hlutverk stjórnvalda og húsnæðislán almennt, eins og lesa má um í þingmálaskrá sem lögð var fram í haust. Því er erfitt eða ekki hægt að mynda sér skoðun á þeim heildaráhrifum þeirra breytinga sem hæstv. ráðherra sér fyrir sér í þeim gríðarlega mikilvægu málum sem húsnæðismálin eru.

Meginmarkmiðið með því frumvarpi sem við ræðum hér í dag, þ.e. breytingu á húsaleigulögum, er að koma á meiri festu í samskiptum milli leigusala og leigjenda svo komast megi hjá ágreiningi og auka réttaröryggi leigjenda. Það eru vitaskuld góð markmið en ég velti fyrir mér hvort líklegt sé að þeim verði náð með frumvarpinu og ætla að koma betur að því síðar í ræðu minni.

Ég ætla að stikla á stóru og draga út nokkur atriði frumvarpsins sem ég tel vert að gefa gaum og að hv. velferðarnefnd sem fær málið til sín að lokinni þessari umræðu eigi að taka sérstaklega til frekari skoðunar.

Fyrst langar mig að nefna breytingar í frumvarpinu sem ég tel vera jákvæðar og til bóta, en þær varða brunavarnir. Fjallað er um þær í 9. gr. og líkt og segir í athugasemdum virðist sem brunavörnum sé frekar ábótavant í leiguhúsnæði en í húsnæði sem eigandi býr sjálfur í. Í frumvarpinu er ítrekuð sú skylda sem nú þegar hvílir á leigusala samkvæmt lögum um brunavarnir til að tryggja að fullnægjandi brunavarnir séu til staðar. Ekki er verið að leggja frekari kvaðir á leigusala en nú þegar hvíla á þeim heldur undirstrika að lögum um brunavarnir sé fylgt. Þetta tel ég að sé mjög jákvætt og til mikilla bóta fyrir leigjendur.

Þá er lagt til í frumvarpinu að gerður verði greinarmunur á lengd uppsagnarfrests þegar leigusali er annars vegar einstaklingur og hins vegar þegar um er að ræða leigufélag sem í atvinnuskyni leigir út íbúðarhúsnæði. Þetta held ég að sé að mörgu leyti ágætt, vitaskuld sér í lagi fyrir leigutakann. En það verður hins vegar líka að hafa í huga að leigusalar eru alls ekki alltaf stór félög heldur einmitt venjulegt fólk sem af einhverjum orsökum þarf eða vill leigja út íbúð sína og staða þeirra gegn ófyrirleitnum leigjendum, sem því miður fyrirfinnast, er erfið. Ekki er að sjá að í frumvarpinu sé tekið á því langa eða kostnaðarsama ferli sem það getur verið fyrir leigusala að koma slíkum leigjendum út, þ.e. þeim sem neita að yfirgefa íbúðir vegna skulda eða eru með útrunninn leigusamning. Þetta held ég að sé eitthvað sem nefndin þurfi að skoða og hvort kannski megi fínstilla betur.

Svo verð ég að segja að mér finnst nokkuð óljóst hvað átt er við með orðalaginu „leigufélag sem í atvinnuskyni leigir út íbúðarhúsnæði“. Er ætlun hæstv. ráðherra að þetta orðalag nái einnig til sjálfseignarstofnana sem reka einhvers konar félagslegt húsnæði og hafa í kringum sig nokkur umsvif vegna þess en stunda ekki leigustarfsemi í hagnaðarskyni? Það leiðir kannski að stóra málinu varðandi þetta frumvarp, en í því er lagt til að 3. mgr. 2. gr. núgildandi húsaleigulaga falli brott. Það lætur kannski ekki mikið yfir sér en mundi hafa miklar og að mínu mati slæmar afleiðingar ef það næði óbreytt fram að ganga.

Í 3. mgr. 2. gr. húsaleigulaga segir, með leyfi forseta:

„Sé íbúðarhúsnæði leigt til ákveðinna hópa, svo sem námsmanna, aldraðra eða öryrkja, þar sem sérstakar aðstæður kalla á aðra skipan en lögin mæla fyrir um, er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt, vegna sérstaks eðlis eða tilgangs starfseminnar, að víkja frá einstökum ákvæðum laganna með samningi.“

Í athugasemdum með frumvarpinu þar sem fjallað er um samráð er ekki að sjá að samráð hafi verið haft við þá aðila sem leigja þeim hópum sem þarna eru nefndir, svo sem Félagsstofnun stúdenta sem leigir námsmönnum og Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins sem leigir öryrkjum. Og raunar kom fram í framsögu ráðherra áðan að við samningu frumvarpsins hefði ekki verið haft samráð við þá aðila en að úr því hafi nú verið bætt og að samtal eigi sér stað núna vegna þessarar klausu. Það er gott, þó svo að ég hefði viljað kannski sjá það gert fyrr, en ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa sett sig í samband við þessa aðila og að samtal eigi sér núna stað.

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að upplýsa það að sjálf sit ég í stjórn Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, og vil að það sé sagt héðan úr þessum stól þannig að ef einhver vafi um hagsmunatengsl kann að koma upp þá er hér með gerð grein fyrir því.

Skömmu eftir að frumvarpinu var dreift gagnrýndi formaður Húseigendafélagsins, Sigurður Helgi Guðjónsson, það harðlega í viðtali í Fréttablaðinu 2. apríl síðastliðinn, að fella ætti 3. mgr. 2. gr. laganna út. Þar staðhæfði hann að með frumvarpinu væri verið að færa leigumarkaðinn aftur til þess kerfis sem ríkti til ársins 1994 þegar núgildandi lög voru sett. Þetta eru stór orð og ég skal ekki dæma um það hvort þau eru rétt en ég tel alla vega að við eigum að leggja við hlustir og athuga hvað það er í þessu frumvarpi sem hann telur þess valdandi að við séum að fara aftur til fyrri tíma. En sérstaka athygli vakti sú fullyrðing formannsins að með því að fella niður ákvæði sem undanskilur lögin frá leigu til ákveðinna hópa væri verið að kippa fótunum undan og rústa leigustarfsemi t.d. Félagsbústaða og Félagsstofnunar stúdenta og fleiri. Fulltrúar Félagsstofnunar stúdenta og Félagsbústaða í Reykjavík tóku undir þær áhyggjur formanns Húseigendafélagsins nokkrum dögum síðar. Félagsstofnun stúdenta túlkar breytingarnar á þann hátt að þær komi í veg fyrir að gera megi kröfu um að leigjendur stundi jafnframt nám við háskólann sem leiða mundi til lengri biðlista og bitna á þeim hópum sem leigufélaginu er ætlað að sinna, þ.e. stúdentum. (Gripið fram í: Rangt.) Svör Félagsbústaða við fyrirspurn fréttamanna voru á sama veg, að frumvarpið mundi setja rekstur þeirra í uppnám.

Hæstv. ráðherra talaði um í framsöguræðu sinni áðan að hún teldi þetta lagaákvæði vera of opið og að þess vegna þyrfti að taka það út. Ég hef áhyggjur af því að með því að kippa lagaákvæðinu út í heild sinni eða fella það á brott sé verið, líkt og fulltrúar Félagsstofnunar stúdenta og Félagsbústaða og fleiri hafa bent á, að kippa grunni undan rekstri þeirra og tel þess vegna að þetta þurfi að skoða gríðarlega vel eða hreinlega hætta við og fara frekar þá leið sem mér fannst hæstv. ráðherra ýja að í máli sínu, að setja kannski aðrar skorður eða að tryggja rétt leigjenda með öðrum hætti. Þarna er um að ræða félög sem leigja fólki sem er oft í mjög viðkvæmri fjárhagslegri stöðu og á kannski ekki fjárhagsins vegna tök á því að leigja á almennum markaði. Þess vegna, þegar við breytum húsaleigulögum, hljótum við að þurfa að passa okkur á því að kasta ekki barninu út með baðvatninu og breyta lögunum á þann hátt að öryggi leigjendanna sé ekki tryggt. Ég tel að þegar um er að ræða samtök líkt og Brynju, hússjóð Öryrkjabandalagsins, eða Félagsstofnun stúdenta sem leigja á félagslegum grunni, þ.e. ekki með arðsemis- eða gróðasjónarmið að leiðarljósi, fari hagsmunir leigjandans og leigufélagsins saman enda starfi leigufélögin í þágu og með hagsmuni leigjandans að leiðarljósi.

Hæstv. forseti. Af því sem ég hef best skilið hæstv. ráðherra þá er þessi breyting ekki í samræmi við hvernig ráðherra málaflokksins hefur talað til þessa, þ.e. að ég tel að ráðherrann beri hag þessara leigjendahópa fyrir brjósti. Það kemur raunar fram í frétt sem birtist á mbl.is 20. október síðastliðinn að á þingi ASÍ hvatti hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra forsvarsmenn stéttarfélaganna til þess, með leyfi forseta, „að velta því fyrir sér hvort til greina komi að stéttarfélögin stofni leigufélög án gróðasjónarmiða.“ Svo ég skil ekki betur en að hæstv. ráðherra styðji þá hugmynd að leigufélög eigi að vera til sem leigi fólki húsnæði án gróðasjónarmiða. En leigufélag sem þessi eru og hafa verið gríðarlega mikilvæg á íslenskum leigumarkaði (Forseti hringir.) og það er því afar mikilvægt að standa vörð um þau og styrkja þau enn frekar. Ég tel það því vonda byrjun á endurskoðun laga (Forseti hringir.) ef hún kippir starfsgrundvellinum undan þeim sem leigja húsnæði til hópa sem standa hvað verst fjárhagslega.