144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að það gæti út af fyrir sig verið jákvætt að stéttarfélög beittu sér fyrir því, alveg eins og ég held að það sé bara almennt jákvætt að félög manna reyni að takast á við sameiginleg verkefni. Hv. þingmaður nefndi það fyrr í ræðu sinni að hún sæti í stjórn Brynju – Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, sem er húsnæðisfélag á vegum samtaka öryrkja. Við höfum fjölmörg önnur dæmi um hópa sem hafa þannig ráðist í verkefni, hvort sem það eru samtök eldri borgara eða aðrir hópar til að taka á húsnæðismálum sínum. Það hafa líka ýmsar stéttir gert.

Það leysir hins vegar ekki kjarnavandann sem er sá að fjármuni skortir til að gera þetta þannig að fólk geti staðið undir kostnaði. Stéttarfélögin eiga enga sjóði sem þau geta notað til þess verkefnis. Það er einfaldlega hið opinbera sem þarf að koma með þá fjármuni og þó að ráðherrann geti alveg bent á stéttarfélögin og hvatt þau til að gera einhverja hluti þá verður hún og ríkisstjórnin að koma með þá fjármuni sem þarf til að leigan á nýbyggingum á húsnæði geti verið með skaplegum hætti. Það sér hver maður að það gengur ekki á hinum markaðslegu forsendum sem kalla kannski á húsaleigu um og yfir 200 þús. kr. á mánuði sem er meira en margir á leigumarkaði ráða við. Ég held að það sé ágætt að stéttarfélögin reki það eða lífeyrissjóðir ef því er að skipta. Menn hafa góða reynslu af því til dæmis í Þýskalandi sem kann nú vel fótum sínum forráð í fjármálum.