144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[17:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að segja nokkur orð um það frumvarp til laga sem hér er, um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum.

Ég vil halda áfram með það sem ég fjallaði um í stuttu andsvari við hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrr í dag, þ.e. um þann kafla sem heitir Athugasemdir við lagafrumvarp þetta. Samþykkt var á Alþingi að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála í þingsályktun sem samþykkt var 28. júní 2013. Ég vek athygli á því að þetta var í júní 2013. Síðan var verkefnisstjórnin skipuð 9. september sama ár, 2013. Verkefnisstjórnin skilaði svo tillögu til ráðherra með skýrslu og skilaði jafnframt tillögum með skýrslu 6. maí 2014, fyrir tæpu ári síðan. Og svo núna í lok apríl þegar mánuður er eftir af þingstörfum og einungis 15 þingdagar eru eftir, að vísu nokkrir nefndadagar, kemur þetta frumvarp loksins fram. Ég verð að segja alveg eins og er með fullri virðingu fyrir embættismönnum í velferðarráðuneytinu sem og öðrum sem að málinu hafa komið, að mér finnst þetta hafa tekið allt of langan tíma. En ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði aldrei sætt mig allan þennan tíma sem settur er í þetta verkefni þó að það sé frumvarp upp á 40 greinar með alls konar lagabreytingar á lögunum frá 1994, sem eru þó með síðari breytingum. Mér finnst eftirtekjan vera frekar rýr eftir þennan tveggja ára feril.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu og samskiptum leigjenda og leigusala svo komast megi hjá ágreiningi síðar. Fínt mál, mjög gott mál.

Í öðru lagi er um að ræða frjálsa samninga milli leigusala og leigjenda. Já, það á ekki að vera neitt nýmæli, auðvitað á það að vera þannig að samningar séu frjálsir en að settur sé ákveðinn lagarammi. Gott, líka ágætt mál.

Enn fremur eru lagðar til breytingar á því hvernig staðið skuli að úttektum á hinu leigða húsnæði þannig að aðilar komi sér saman um úttektaraðila í stað þess að sjálfkrafa sé leitað til byggingarfulltrúa í því sveitarfélagi þar sem húsnæði er. Já, líka alveg sjálfsagt mál.

Í fjórða lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um hvernig kostnaður slíkra úttekta sem og annarra starfa sem gert er ráð fyrir að úttektaraðilar sinni skuli skipt milli aðila. Já, líka alveg sjálfsagt mál.

Að lokum er lagt til að tekin verði upp ítarlegri ákvæði um eftirlit ráðherra með starfsemi leigumiðlara. Það er líka alveg sjálfsagt mál.

En þessi meginatriði frumvarpsins eru sem sagt afrakstur af tveggja ára vinnu. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta hafi tekið langan tíma nema ráðherra hafi verið að hugsa sér að vera með þau tvö frumvörp sem eru á dagskrá í dag sem og frumvörpin tvö sem föst eru í höndum fjármálaráðherra út af kostnaðarmati. Ég held að þau séu ekki eingöngu föst vegna kostnaðarmats, ég held að þau séu fyrst og fremst föst vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að leggja neina fjármuni í þessi húsnæðisfrumvörp sem Framsóknarflokkurinn hreykir sér af og lofaði að vinna að og setja fram, en það fylgja ekki fjármunir með og þess vegna er málið stopp, ekki hjá starfsmönnum ráðuneytisins heldur hjá fjármálaráðherra, hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um að veita þá fjármuni sem þarf í hin frumvörpin tvö sem eru stofnstyrkir og húsnæðisbætur.

Mér þykir frekar aumt hlutskipti Framsóknarflokksins að láta sér það lynda með forsætisráðherra yfir ríkisstjórninni, þar sem þetta átti að vera svo mikilvægur málaflokkur framsóknarmanna, en útkoman er þessi. Þetta eru allt saman þarfar og fínar breytingar en rúsínan í pylsuendanum er auðvitað sú — og þess vegna er þetta frumvarp komið fram, svo og hitt frumvarpið sem rætt verður á eftir að í stuttri umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, skrifstofu opinberra fjármála segir í lokasetningu. Það sama á við hér og um hitt frumvarpið, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs.“

Ég held að það sé þess vegna sem þessi frumvörp fóru í gegnum fjármálaráðuneytið og húsnæðisráðherrann náði því í gegnum ríkisstjórnina sem hún situr í, en hin frumvörpin tvö sem hafa útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð eru stopp þar. Því miður verð ég að spá því að þau komi ekki fram á þessu þingi, eins og mér fannst hæstv. ráðherra gefa í skyn hér í gær með þeirri lýsingu sinni á því að það yrði þá forgangsmál að koma fram með það í haust. Það er vandamálið.

Mig langar að fara aðeins yfir stöðuna á leigumarkaðinum sem er mjög alvarleg. Hún er slæm vegna þess að það er of lítið framboð af húsnæði til leigu og þess vegna er leigan svo há. Ef það er rétt að þriggja herbergja íbúð er að nálgast 230–240 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu er það auðvitað mjög alvarlegt mál og segir sig sjálft að þeir sem eru fastir á leigumarkaði komast ekki af honum vegna þess að þeir geta ekki keypt sér húsnæði af því að þeir eiga ekki 20% í útborgun, en ekkert er tekið á því hér eða í öðrum frumvörpum. Þeir eru fastir á leigumarkaði og þá segir það sig sjálft að viðkomandi einstaklingar eða aðilar þurfa að hafa upp undir 500 þús. kr. í tekjur til að eiga fyrir leigunni. Þó svo að húsaleigubætur komi eitthvað til móts við þá eru þær nú ekki svo háar að það muni öllu. Inn í þetta blandast staða leigufélaganna. Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir er í raun talsmaður Framsóknarflokksins í húsnæðismálum af óbreyttum þingmönnum, en hún situr í velferðarnefnd sem fær þetta frumvarp til sín. Ég spurði hana út í stærsta kosningaloforð allra loforða, höfuðstólsleiðréttinguna, sem átti að vera 300 milljarðar en endaði í 80. Það voru 80 milljarðar sem komu frá ríkissjóði en við skulum ekki tala um 70 milljarðana vegna þess að þeir koma frá hverjum og einum af sparnaði hans til að leggja það inn. Þó að það sé ágæt leið er það ekki hluti af þeirri leið sem lofað var fyrir kosningar og svikið með svo eftirminnilegum hætti eins og dæmin sanna. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra, hún getur kannski svarað því þegar hún kemur upp í síðustu ræðu sína um málið: Hvað líður höfuðstólsleiðréttingu eða lagfæringum til leigufélaga? Þá er sama hvort það er Félagsstofnun stúdenta, Búseti, Félagsbústaðir eða önnur félög sem eru á þessum markaði. Hvað líður leiðréttingu á stökkbreyttum lánum þeirra eins og lofað var? Hvað líður lagfæringum til leigjenda eins og lofað var? Ekkert af þessu er komið fram.

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost á landsfundi Samfylkingarinnar að sitja í málstofu þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir áform Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum og leigumálum. Ég held að það sé eina ljósið í myrkrinu í þessum málum, þ.e. stefna núverandi meiri hluta Reykjavíkurborgar hvað þau ætla að gera í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu. Það voru mikil áform en þar voru ákveðnir fyrirvarar um stofnstyrki o.fl. sem verða að koma frá ríkisvaldinu. Þess sér hvergi stað og í raun og veru er þetta aðgerðaleysi núverandi hæstv. ríkisstjórnar með Framsóknarflokkinn í broddi fylkingar í bæði málaflokknum svo og ríkisstjórninni sem setur margt af áformum Reykjavíkurborgar í uppnám. Það er mjög alvarlegt mál vegna þess að hér er þörfin mest.

Ég vil líka geta þess að þó að mest sé rætt um vandamál á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu er vandamál á fjölmörgum stöðum úti á landi líka, svo því sé haldið til haga. Skortur á húsnæði á leigumarkaði og skortur á húsnæði í félagslega kerfinu fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu hamlar vexti uppbyggingar atvinnulífs og uppgangi sveitarfélaga víða úti á landi. Það er m.a. vegna fyrri starfa sjálfstæðismanna og framsóknarmanna þegar þeir sátu í ríkisstjórn að það kerfi var eyðilagt, það var kerfi með niðurgreiddum vöxtum sem skiluðu sér vel. Ég þekki það sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður að þessar byggingar og góð kjör með lágum vöxtum voru í raun og veru eina ljósið sem margir sáu í húsnæðismálum víða úti um land, en það var eyðilegt.

Ég hef spurt hæstv. félagsmálaráðherra út í höfuðstólsleiðréttinguna. Nú verður það bara að segjast eins og er að ráðherrar hlusta ekki endilega á umræðu sem á sér stað. Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra er ekki að hlusta þannig að það hefur sennilega engan tilgang að setja fram spurningar. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í hugmynd sem samþykkt var á landsfundi Samfylkingarinnar, sem er að búa til hvatakerfi þannig að einstaklingur geti leigt frá sér eina íbúð og haft af því algerlega skattlausar tekjur. Ég held að það sé aðgerð sem fara eigi í. Það mundi gera það að verkum að fleiri íbúðir yrðu leigðar út, ef til vill yrði stóru húsnæði breytt þannig að þar væri hægt að leigja út minni íbúðir. Það má eiginlega segja að það sé svipuð hugmynd og verið er vinna með í sambandi við leiguhúsnæði til ferðamanna, en komið er fram frumvarp frá einum ráðherra um það mál og byrjað að vinna með það í atvinnuveganefnd, þ.e. að liðka til og auðvelda einstaklingum að leigja íbúð til ferðamanna ákveðinn vikufjölda. En eitt af vandamálunum sem við er að glíma í dag er hinn mikli fjöldi íbúða, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, sem er leigður út til ferðamanna og er þess vegna ekki á almennum leigumarkaði. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra út í hugmyndina um skattleysið þegar hæstv. ráðherra kemur hér í salinn, þ.e. hvort ekki hafi komið til tals í þessu máli hér að setja dæmið þannig upp að einstaklingar gætu leigt eina íbúð út skattlaust. Ég held að það væri fljótvirk leið.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var í andsvari við umræddan þingmann Framsóknarflokksins, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, þar sem hann fjallaði um einhverja samþykkt frá leigjendasamtökum eða öðrum, sem var ályktun um þessi frumvörp. Hún var eitthvað á þá leið að það væri betra að þessi frumvörp lægju áfram niðri í skúffu á ráðuneytinu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hún fengið slíka ályktun til sín og er slík ályktun til? Ég fann ekki þessa samþykkt á þeim stutta tíma sem ég hafði til að leita að henni. Hverjir voru það sem gerðu þessa samþykkt? Hvaða athugasemdir voru gerðar við þetta frumvarp, sem er margar greinar en lítið annað en sjálfsagðar lagfæringar sem þarna eru settar inn?

Að lokum vil ég segja það í umræðu um húsnæðismál að stóru málin tvö sem eru föst hjá fjármálaráðherra og Framsóknarflokkurinn kemur ekki í gegnum fjármálaráðuneytið eða fjármálaráðherra og fær ekki fjárveitingar til, eru auðvitað stóru málin sem við bíðum eftir. Þetta frumvarp hér ásamt hinu frumvarpinu sem rætt verður á eftir eru sjálfsagðar lagfæringar á lögum sem orðin eru töluvert gömul. Ég skil þó ekki hvernig var hægt að eyða tveimur árum í að koma með þetta frumvarp sem er nú loksins komið fram á síðustu dögum þingsins.