144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er satt, þetta eru auðvitað samvinnufélög með sjálfsábyrgð. Það er alveg rétt að í frumvarpinu er kveðið á um þessa úttekt á að minnsta kosti þriggja ára fresti umfram ársreikninga þar sem félagsmenn geta fylgst með þróun mála og upplýsingaskyldu við kaup á búseturétti eða inngöngu í félagið. Það er líka þannig að hægt er að skrá börn í félagið og greiða félagsgjald þó að þau megi ekki kaupa búseturétt fyrr en við 18 ára aldur. Það er kannski fjöldi fólks sem er með rétt í félaginu án þess að eiga búseturétt.

Þeir sem eiga búseturétt eru með mikla fjárhagslega hagsmuni þarna. Það má spyrja sig í ljósi sögunnar hvort ekki sé ástæða til að skapa meira traust á þessu kerfi sem við viljum að verði almennara hér á landi, að fólk geti treyst því. Fólk er misvel til þess fallið að fylgjast með fjárhag félaga. Þú ert í félaginu af því þú vilt tryggja þér þak yfir höfuðið, en þú ert kannski ekki sérstaklega vel til þess fallinn að fylgjast með fjárhag félagsins eða koma auga á ef eitthvað er að fara úrskeiðis í rekstrinum. Ég endurtek að ég tel að ástæða kunni að vera til að vera með virkara opinbert eftirlit og þá líka skýrari upplýsingar um hvernig úttektinni skuli komið til skila, að það séu einhverjir opinberir aðilar sem fái hana og hvernig hún skuli kynnt félagsmönnum.