144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:22]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir spurningarnar. Ég held að það sé eitt af því sem nefndin þarf að fara vel yfir en við erum að leggja hér til ákveðið svigrúm sem snýr að fjármögnun félaganna. Það má lesa í gegnum löggjöfina um húsnæðissamvinnufélög að menn hafa gert ráð fyrir því að húsnæðissamvinnufélög væru fyrst og fremst fjármögnuð í gegnum Íbúðalánasjóð. Með breytingunni erum við ekki að gera ráð fyrir því að fjármagnið komi fyrst og fremst þaðan. Þar er líka svigrúm til þess annars vegar að fjármagnskostnaður við félagið endurspeglist á hverja íbúð eða heildarkostnaðurinn við félagið. Mér skilst að það geti gefið ákveðið svigrúm fyrir félög að bjóða upp á mismunandi leiðir gagnvart mismunandi hópum, en ég er viss um að félögin sjálf munu fara betur í gegnum það á fundi ef óskað er eftir umsögnum frá þeim sem ég efast ekki um.

Því til viðbótar tel ég líka rétt að það séu ekki bara hagnaðarlaus leigufélög sem geti fengið stofnframlög heldur að stofnframlög geti líka farið til húsnæðissamvinnufélaga, en þá þurfa félagsmenn hins vegar að uppfylla skilyrði sem snúa að tekjum og eignamörkum því að hugsunin með þeim er fyrst og fremst að huga að þeim sem eru með lægri tekjurnar. Það er mjög rík afstaða hjá mér að stuðningur hins opinbera eigi þá að beinast gagnvart þeim sem eru með lægstu tekjurnar.

Varðandi það sem spurt var um hvað varðar fjöldann sem getur stofnað húsnæðissamvinnufélag, hér er talað um 15. Það er eitt af því sem nefndin þarf að vega og meta. Við vorum að horfa til samræmis við samvinnufélagslöggjöfina. Síðan vil ég líka benda á önnur lög sem snúa að byggingarsamvinnufélögum. Þau voru nýtt töluvert hér á árum áður þar sem einstaklingar tóku sig saman og byggðu saman, en síðan var því breytt og leyst upp þannig að fólk eignaðist sitt húsnæði.