144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ýmsar úrbætur sem eflaust má finna í frumvarpinu á starfsumhverfi húsnæðissamvinnufélaga.

Ég kem hingað upp til að inna hv. þingmann Framsóknarflokksins eftir því hvað líði niðurfærslu skulda í þeim félögum í samræmi við þær aðgerðir sem farið var í gagnvart því fólki sem er í eigin húsnæði. Á síðasta ári höfum við verið að bíða eftir því að fólkið í þessum félögum fái sömu meðferð, njóti sömu réttinda og aðrir á húsnæðismarkaði. Við höfum átt hér inni fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, frá því í janúarmánuði og nú er næstum því kominn maí og enn hefur hann ekki treyst sér til að svara þeirri spurningu.

Ég þykist vita að þetta brenni nú á í kjördæmi hv. þingmanns og spyr hana þess vegna: Hvað líður leiðréttingu fyrir það fólk sem er í húsnæðissamvinnufélögunum og sannarlega fékk á sig mikla hækkun á þeim lánum og greiðslubyrði sem það býr við?