144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Markmið frumvarpsins er, líkt og kemur fram í athugasemdum sem fylgja því, að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa í samræmi við það markmið stjórnvalda að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum og hafi raunverulegt val um búsetuform. Ég tel það í sjálfu sér ekkert annað en jákvætt, enda auki það valkosti fólks þegar kemur að húsnæði eða búsetuformi eða fyrirkomulagi.

Þá segir einnig í fyrrgreindum athugasemdum að mikilvægt sé að húsnæðissamvinnufélög hafi svigrúm til að skapa sér sérstöðu á húsnæðismarkaði og hafa þannig möguleika á að haga reglum félagsins með þeim hætti sem félagsmenn þess sjálfir telja æskilegt eða passa sínu félagi. Markmiðið er, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra í framsöguræðu hennar, áðan að stuðla að sjálfbærum og öruggum rekstri húsnæðissamvinnufélaga.

Frumvarpið er mjög tæknilegs eðlis, verð ég að segja, og tekur á hlutum eins og því hvert hlutverk stjórnar er, fjallað er um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra. Þar er talað um félagsaðild og fjallað um fyrirkomulag ársreikninga, skýrslu stjórnar og hvað það er sem á að koma fram þar, og líklega ekkert nema gott um það að segja að á því sé tekið í frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Það er hins vegar ekkert komið inn á hvernig koma eigi til móts við búseturéttarhafa húsnæðissamvinnufélaga varðandi niðurfærslu skulda. Þetta er hópur sem fær greiddar vaxtabætur en fékk ekki leiðréttingu á lánum sínum í stóru 80 milljarða kr. skuldaniðurfellingu hæstv. ríkisstjórnar og er ekki að sjá á þessu frumvarpi að hann eigi að fá neitt frekar að þessu sinni, þrátt fyrir það sem hafa verið gefin ákveðin áheit um í umræðunni og eitthvað ýjað að, að mögulega verði tekið á því í frumvörpum sem við höfum ekki fengið að sjá á enn þá og eru enn stödd i kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu. Það er auðvitað ekki nógu gott og veldur þeirri sem hér stendur ákveðnum vonbrigðum. En líkt og kemur fram í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins með þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir því að lögfesting á því tiltekna frumvarpi leiði til neinna útgjalda fyrir ríkissjóð.

Eins og ég segi eru þetta mér talsverð vonbrigði, en hvað varðar frumvarpið og það sem þó er í því sýnist mér, svo langt sem það nær, það til þess fallið að skerpa á rammanum um rekstur húsnæðissamvinnufélaga og styrkja þar með réttarstöðu búseturéttarhafa. Eins og ég sagði áðan er frumvarpið mjög tæknilegs eðlis og því verður mjög áhugavert að sjá þær umsagnir sem eiga eftir að berast hv. velferðarnefnd vegna frumvarpsins. Ég tel mjög mikilvægt að við sem sæti eigum í hv. velferðarnefnd förum vel yfir þær því að líkt og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan geta breytingar sem við fyrstu sýn virðast léttvægar reynst afdrifaríkar og því mjög mikilvægt að fá umsagnir þeirra sem best þekkja til reksturs húsnæðissamvinnufélaga, þekkja það umhverfi hvað best og hafa jafnvel eigin reynslu af því að vera búseturéttarhafi í slíku samvinnufélagi.

Það eru vonbrigði að hér er ekkert fjallað um það hvernig koma eigi til móts við búseturéttarhafa hvað varðar niðurfærslu skulda, því að það er hópur sem er enn þá óbættur og hefur ekki notið góðs af þeirri gríðarlega miklu millifærslu af peningum sem hefur þegar farið til eigenda íbúðarhúsnæðis, en er engu að síður fólk sem situr uppi með breytt lán og þarf auðvitað að borga leigu inn í húsnæðissamvinnufélög sín í takt við það.