144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[19:01]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna um frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Það eru örfá atriði sem ég vildi nefna í lokin í ljósi þess sem hefur komið fram við umræðuna.

Töluvert er síðan umræðan um skuldaleiðréttinguna var tekin fyrir hér í þinginu. Þar lá fyrir að hún væri hugsuð fyrir einstaklinga, lánveitingar til einstaklinga. Ef einstaklingar voru með verðtryggð lán áttu þeir rétt á skuldaleiðréttingu. Þeir sem voru með lán vegna kaupa á búseturétti áttu þar af leiðandi líka rétt á því að fá skuldaleiðréttingu. Því til viðbótar, eins og fram kom í framsöguræðu minni, í frumvarpinu og í lögunum sjálfum og ekki er verið að breyta því, er ábyrgð búseturéttarhafa takmörkuð við búseturéttinn sjálfan, þannig að þeir sem eru félagsmenn og kaupa búseturétt bera sem einstaklingar ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins.

Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að velferðarnefnd fari vel yfir þær breytingar sem hér er verið að leggja til sem snúa að fjármögnun félaganna. Það er verið að opna fyrir það að í staðinn fyrir að fjármagnskostnaður og annar kostnaður sem tengist stakri búseturéttaríbúð endurspeglist í búsetukostnaðinum við búseturéttinn og síðan búseturéttargjaldið megi hann endurspegla heildarkostnaðinn við félagið. Þar af leiðandi gefur það félögunum ákveðið svigrúm til að fara í fjárhagslega endurskipulagningu hjá sér og þá í einhverjum tilvikum bæta verulega stöðu einstakra búseturéttarhafa. Þetta er eitthvað sem ég held að nefndin þurfi að fara mjög vel yfir, þau ákvæði sem varða þetta.

Þarna er líka verið að opna fyrir það að ekki sé fyrst og fremst horft á Íbúðalánasjóð sem fjármögnunaraðilann fyrir þessi félög, heldur að horfst í augu við þá þróun sem hefur verið þar sem aðrir lánveitendur hafa verið að ryðja sér til rúms á húsnæðislánamarkaðnum. Eftir að við erum búin að samþykkja þessar breytingar á lögunum mun það vonandi endurspeglast í því að þessi félög verði enn betri skuldarar þannig að lánveitendur séu þá tilbúnir til að fjármagna þau verkefni sem félögin horfa til.

Það er erfitt að ræða frumvarp sem ekki er komið fram, en ég hef hins vegar alltaf lagt upp með það — það var umræða sem við tókum á sínum tíma og tengdist breytingu á Íbúðalánasjóði, þegar við vorum að ræða um það hvað leigufélög væru — að þegar horft sé til stuðnings við félagslega húsnæðiskerfið eigi húsnæðissamvinnufélögin rétt á stuðningi líka þannig að það getur líka haft áhrif á stöðu viðkomandi félags. En þá komi á móti ákveðnar skyldur sem tengjast tekjum og eignum viðkomandi, þeirra sem eru í viðkomandi félögum.

Ég veit að menn munu vinna þetta vel í nefndinni og vanda sig. Þetta er stórt frumvarp og það er von mín og trú að það muni gera að verkum að húsnæðissamvinnufélög eflist hér á Íslandi. Ég vona svo sannarlega að þegar frumvarpið kemur aftur úr velferðarnefnd verði hver einasti nefndarmaður orðinn sannfærður samvinnumaður.