144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

dómstólar.

669. mál
[19:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er aldrei gott að þurfa að koma með mál sem eru svona tímabundin í eðli sínu eins og þetta mál er. Mig rekur minni til þess að fyrsta málið sem ég mælti fyrir í þessari atrennu var einmitt um tímabundna fjölgun héraðsdómara. Síðan hef ég líka komið hingað með mál um frestun nauðungarsölu. Við höfum áður þurft að taka á héraðsdómurum og við höfum líka, eins og ég sagði í minni stuttu ræðu, tekið á fjölgun hæstaréttardómara.

Við höfum litið svo á að við séum í einhverju tímabundnu ástandi. Við munum ekki þurfa til lengri tíma að vera með dómarana svona marga, hvorki á héraðsdómsstiginu né hæstaréttardómsstiginu, eins og hér hefur komið fram. Þó hafa verið uppi þau sjónarmið í héraðsdómi að kannski þurfi samt sem áður að horfa til einhverrar fjölgunar til einhvers lengri tíma. Eitthvert mat verður að fara fram á því. Það er það sem ég vil gera, ég vil að menn fari rækilega yfir það.

Í þessu tilviki taldi ég skynsamlegt að fara að óskum Hæstaréttar. Hæstiréttur mat það svo að þetta væri það sem hann þyrfti. Hann hefur upplýst okkur nákvæmlega um málaálagið á réttinum eins og það liggur fyrir. Það hefur breyst töluvert mikið. Við sjáum núna gríðarlegan fjölda kærumála sem er óvenjulegt en virðist vera viðvarandi þannig að það er einhver breyting að verða sem við þurfum að hafa auga með.

Varðandi síðan það sem hv. þingmaður nefndi um kvendómara get ég upplýst hv. þingmann um að dómurum af okkar góða kyni fjölgar verulega í Héraðsdómi Reykjavíkur, konum fer fjölgandi í dómarastétt. Ég sé fyrir mér að sú þróun muni birtast í Hæstarétti. Ég hef ekki verið talsmaður þess að við eigum að ganga lengra í því en að hvetja konur til að sækja um. Við erum með mjög marga hæfa kvendómara sem standast fyllilega þær kröfur sem við gerum til hæstaréttardómara.