144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[19:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögræðislögum.

Þær breytingar sem lagðar eru til hafa að markmiði að bæta vernd mannréttinda og friðhelgi einstaklinga í íslensku samfélagi. Um er að ræða afar mikilsverð persónuleg réttindi sem reynt getur á þegar einstaklingar eru í viðkvæmri stöðu. Með frumvarpinu eru settar fram tillögur til þess að bæta löggjöfina og verklag á grundvelli hennar. Við undirbúning frumvarpsins hefur ráðuneytið staðið fyrir samráði um með hvaða hætti fyrrgreindum markmiðum verði best náð.

Árið 2012 hófst óformlegt samráðsferli á vegum innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistanir í framhaldi af opnum fundi á vegum ráðuneytisins um mannréttindi geðsjúkra. Í þeirri vinnu heyrðust raddir margra sem nauðungarvistanir snerta með einum eða öðrum hætti. Niðurstöður samráðshópsins voru kynntar ráðuneytinu í skýrslu og byggja breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu á hluta tillagna sem þar komu fram. Þá koma breytingar varðandi nauðungarvistanir til móts við athugasemdir sérfræðinganefndar á vegum Evrópuráðsins í kjölfar heimsóknar nefndarinnar til Íslands árið 2012, en hún hefur eftirlit með aðbúnaði frelsissviptra einstaklinga.

Framlagning frumvarpsins er jafnframt liður í undirbúningi að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Frumvarpið er í 26 greinum og felur í sér veigamiklar breytingar, mismiklar þó. Ákvæði frumvarpsins má greina í tvo meginþætti. Annars vegar er um að ræða ákvæði sem varðar lögræði og atriði þar að lútandi, svo sem hlutverk lögráðamanna og yfirlögráðenda. Hins vegar er að finna ákvæði er lúta að nauðungarvistunum, framkvæmd þeirra og umhverfi, m.a. varðandi stuðning og ráðgjöf til aðstandenda nauðungarvistaðra og yfirfærslu verkefna frá ráðuneyti til sýslumanns. Þá er Þjóðskrá Íslands falið að halda skrár um lögræðissvipta, lögráðamenn þeirra og ráðsmenn á grundvelli laganna í stað ráðuneytisins. Um kerfisbreytingar er að ræða sem eru til þess fallnar að bæta þjónustu við einstaklinga en einnig að bæta utanumhald upplýsinga og tryggja þannig bætta eftirfylgni.

Í frumvarpinu er lögð til sú grundvallarbreyting sem felur í sér að ekki verði lengur heimilt að svipta fólk lögræði ótímabundið heldur að slíkt inngrip í líf fólks verði aðeins heimilað tímabundið. Þá er gert ráð fyrir að endurmat skuli eiga sér stað á stöðu þeirra einstaklinga sem nú eru sviptir lögræði ótímabundið og kannað hvort ekki séu til staðar önnur samfélagsleg úrræði til þess að styðja við þessa einstaklinga í stað þess að svipta þá lögræði. Frumvarpið felur það einnig í sér, verði það samþykkt, að ótímabundnar sviptingar lögræðis, sem úrskurðaðar hafa verið fyrir gildistöku laganna, falli niður að liðnum tveimur árum frá þeim tíma.

Frumvarpið felur í sér breytta nálgun sem stendur í nánum tengslum við alþjóðlega þróun á sviði mannréttinda. Þá er rétt að taka fram að við undirbúning þess var horft til nýlegrar endurskoðunar lögræðislaga í Noregi. Við undirbúning frumvarpsins varð niðurstaðan sú að hér væri rétt að stíga stærri skref en gert var í Noregi en þar var ekki lagt til að leggja niður ótímabundnar lögræðissviptingar. Talið var rétt að ganga lengra í ljósi þess að aðstæður einstaklinga geta breyst og taka mið af aðstæðum þeirra með hliðsjón af þeirri þjónustu og aðstoð sem í boði er á hverjum tíma.

Hæstv. forseti. Tillagan á rætur að rekja til þeirrar vinnu sem hefur farið fram í ráðuneytinu vegna undirbúnings fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en ákvæði samningsins kveða á um að fatlað fólk skuli njóta réttarstöðu til jafns við aðra í samfélaginu. Í því felst að aðildarríki viðurkenni að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins og að gripið skuli til ráðstafana til að tryggja að svo sé.

Í samráðsferli vegna undirbúnings fullgildingarinnar komu fram kröftugar ábendingar um að þær ráðstafanir sem löggjafinn hefur þegar gripið til vegna þessa með ákvæðum laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, væru ekki fullnægjandi að þessu leyti. Með breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru öll tvímæli tekin af um að fötlun eins og sér geti ekki verið grundvöllur inngrips á borð við lögræðissviptingu, fjárræðissviptingu, nauðungarvistun eða þvingaða meðferð. Til þess að tryggja sem best samræmi við ákvæði samningsins var við útfærslu frumvarpsins stuðst við almennar athugasemdir sem nefnd Sameinuðu þjóðanna, sem eftirlit hefur með samningnum, gaf nýlega út og fjallar um inntak viðkomandi ákvæða samningsins.

Þá er lagt til að ekki verði lengur heimilt að svipta einstaklinga sjálfræði af þeim sökum einum að þeir eigi við ofdrykkju- eða fíknivanda að stríða heldur eingöngu samhliða öðrum ástæðum. Að auki eru lagðar til breytingar sem byggja á sömu sjónarmiðum og lágu til grundvallar setningu gildandi lögræðislaga um mikilvægi þess að dómari komist að sjálfstæðri niðurstöðu í málum um sviptingu lögræðis. Með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er rannsóknarskylda dómara í slíkum málum áréttuð enn frekar, en eins og kemur fram í greinargerð með gildandi lögum lúta mál af þessum toga ekki að öllu leyti hefðbundnum réttarfarsreglum.

Hvað varðar formbundna þætti vegna lögræðismála eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um lögráðamenn og yfirlögráðendur og skerpt á hlutverki þeirra og skyldum. Meðal þess sem kveðið er á um er að einstaklingar sem skipaðir verða lögráðamenn þurfi að leggja fram sakavottorð til staðfestingar því að þeir hafi ekki hlotið refsidóm fyrir brot samkvæmt kynferðisafbrotakafla hegningarlaga auk þess sem yfirlögráðendum verður heimilt að kalla eftir sakavottorði.

Yfirlögráðendum er falið aukið hlutverk við eftirfylgni og eftirlit með störfum lögráðamanna, svo sem með aukinni skýrslugerð frá lögráðamönnum til yfirlögráðenda vegna þeirra sem hafa verið sviptir sjálfræði. Þá er felld út sú heimild ráðherra að fara fram á sviptingu lögræðis.

Virðulegi forseti. Nauðungarvistanir eru alvarlegt inngrip í líf hverrar manneskju og mannhelgi einstaklinga ber að virða í lengstu lög. Markmið þeirra breytinga sem hér eru lagðar til er að fækka nauðungarinnlögnum og bæta framkvæmd þeirra sem og að fækka sjálfræðissviptingum. Lagt er til að upplýsingaskylda til nauðungarvistaðs manns verði aukin og aðkoma ráðgjafa nauðungarvistaðs manns eigi sér sjálfkrafa stað. Einnig er lagt til að læknir komi ávallt að því þegar flytja þarf einstakling nauðugan á sjúkrahús. Þá er lagt til að nauðungarvistuðum manni og aðstandendum hans skuli standa til boða ráðgjöf og stuðningur í kjölfar nauðungarvistunar.

Þá eru lagðar til breytingar á tímamörkum nauðungarvistunar, annars vegar þær að hámarkstími nauðungavistunar, sem ekki krefst staðfestingar utanaðkomandi aðila, verði lengdur úr 48 klukkustundum í 72 klukkustundir. Þetta er lagt til með hliðsjón af fenginni reynslu en talið er að nauðungarvistunum geti fækkað ef betri tími gefst til mats á stöðu og einkennum einstaklinga án þess að til nauðungarinnlagnar í allt að 21 dag komi til. Hins vegar er lagt til að hægt verði að framlengja nauðungarvistun einstaklings í allt að tólf vikur í framhaldi af 21 dags vistun. Innan þess tíma geti læknir gefið einstaklingi svigrúm til þess að reyna sig við hefðbundnar aðstæður, svo sem með því að fara af sjúkrahúsi í tiltekinn tíma.

Þá er rétt að nefna mikilvægt atriði er lýtur að því að félagsþjónusta sveitarfélaga eða sveitarstjórn taki alfarið að sér það hlutverk að leggja fram beiðni um nauðungarvistun. Áfram verði þó heimilt í undantekningartilvikum að aðstandendur geti komið að vistun nákominna.

Í tillögum fyrrnefnds samráðshóps um nauðungarvistanir var lagt til að afnema ætti heimild aðstandenda til þess að fara fram á nauðungarvistun einstaklings. Eins og fram kemur í skýrslu hópsins gegna fjölskylda og aðstandendur mikilvægu hlutverki við að styðja einstaklinga þegar nauðungarvistun lýkur og því gæti aðkoma fjölskyldu að nauðungarvistun haft skaðleg áhrif á samskipti og traust innan fjölskyldu. Í umfangsmiklu samráði við undirbúning frumvarpsins komu hins vegar fram mikilvægar ábendingar um að í undantekingartilvikum ættu þessi sjónarmið ekki við. Það komu einnig fram ábendingar um að sveitarfélögin væru misjafnlega í stakk búin til að takast á við þetta verkefni með tilliti til stærðar og staðsetningar og því þyrfti að gera ráð fyrir aðkomu fjölskyldu við slíkar aðstæður. Virðulegi forseti. Þetta er það ákvæði í lögunum sem hvað snúnast er að taka afstöðu til og ég skora á hv. nefnd að fara rækilega yfir þau sjónarmið sem liggja þarna að baki því að við vitum að þessi mál eru afar þungbær fyrir þær fjölskyldur sem þurfa að standa í þeim.

Með frumvarpinu eru stigin skref til þess að færa íslenskt lagaumhverfi nær því sem fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks krefst. Það er hluti tillagna, niðurstaða rúmlega þriggja ára samráðsferlis um úrbætur hvað varðar nauðungarvistanir. Einnig er brugðist við ábendingum innlendra og erlendra aðila um hvað megi betur fara í framkvæmd þessara viðkvæmu mála.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.