144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki tök á því að koma að þessu í fyrra andsvari. Þetta eru athugasemdir sem lúta líka að tæknilegum þáttum í frumvarpinu. Ég dreg fram viðkvæmasta þáttinn þegar ég nefni þann þátt sem ég hefði haldið að nefndin vildi skoða sérstaklega. Síðan voru tæknilegri þættir sem menn bentu á og ég tel að ráðuneytið hafi reynt eftir megni að mæta þeim, þ.e. ýmiss konar orðalagsatriði varðandi framlengda nauðungarvistun og upplýsingaskylduatriði og slíkir mikilvægir þættir sem komu fram þegar við vorum að vinna þetta mál. Rík áhersla var lögð á það við vinnslu þessa máls í ráðuneytinu að reyna að mæta eins og hægt væri þeim athugasemdum sem fram komu um málið til að bæta það. Einnig voru atriði um að lögræðissviptir fengju rétt á persónulegum talsmönnum og slíkir þættir, allir réttindaeðlis.

Varðandi fjármagnið og fyrirkomulagið þá er náttúrlega vandasamt fyrir mig að segja endanlega um það hvort þarna sé um nægt fé að ræða. Við styðjumst við það að þetta sé nóg. Það er verið að gera verulegar breytingar. Það er verið að búa til miklu betri skrár í Þjóðskrá. Það er verið að koma þessu í betra horf — í nútímalegt horf, vil ég orða það. Það mun kosta einhverju til. Auðvitað vonum við að þetta dugi og við höfum svo sem trú á því að svo sé, en á sama tíma verð ég að láta það fylgja með að við erum að byrja á nýju verklagi. Við þekkjum það að við höfum ekki alveg getað spáð nákvæmlega fyrir um hvernig hlutirnir fara á endanum.