144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að hafa fengið þetta frumvarp inn í þingið þótt það sé út af fyrir sig mælt fyrir því býsna seint á þessum þingvetri, kannski einkanlega þegar litið er til þess hversu flókin álitaefni eru í tengslum við lögræðissviptingar og hversu feikilega vandmeðfarin og vandasöm mál þetta eru. Það er mikilvægt að vandað sé sérstaklega vel til umgjarðarinnar sem um þetta er. Það hefur hins vegar verið talsvert langur aðdragandi að því að málið kemur fram og ég held að óhætt sé að ljúka lofsorði á undirbúning málsins, þótt það kunni að vera einstaka álitaefni í frumvarpinu sem þarfnist frekari umræðu í þingnefndinni og eðlilega kallað eftir sjónarmiðum þeirra sem best þekkja um málið í hinni þinglegu meðferð. En ég vil að minnsta kosti ekki á fyrstu stigum þinglegrar meðferðar málsins útiloka það að unnt væri að ljúka málinu á yfirstandandi þingi, þó að sá mánuður sem eftir er af vorþinginu sé auðvitað býsna knappur tími fyrir jafn viðkvæmt og mikilvægt mál. Það væri auðvitað mikilvægur áfangi að ná ef það mætti takast að klára þetta.

Hér er verið að koma til móts við vaxandi kröfur um mannréttindi, m.a. fatlaðs fólks en líka fólks almennt, og verið að draga úr og takmarka möguleika á því að nauðungarvista það með því að svipta það sjálfsforræðinu. Í því efni á sem betur fer sífelld þróun sér stað og þar sem fólk var eitt sinn ólað niður á stofnanir í bókstaflegri merkingu er nú unnið að því að því að reyna að auka og þróa frelsi fólks og réttindi, jafnvel þótt það búi við alvarlegar fatlanir eða aðra þá hluti sem gera því erfitt fyrir að fara með gerræði sitt en geta það með aðstoð og hjálp úr umhverfinu.

Ég vil síðan fá að nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til að vinna að hinu stóra málinu sem stendur upp á innanríkisráðuneytið til þess að það megi ljúka hvort heldur er fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eða lögfestingu sáttmálans Ég held að það væri ráð, hæstv. ráðherra, að rætt væri í ríkisstjórn hvort ekki væri örugglega sami skilningur helstu ráðuneyta á því í hvaða vegferð menn eru þar, það sé ætlunin að fullgilda sáttmálann eða lögfesta hann, því að það hafa verið kröfur frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks um að hann verði lögfestur, með tilteknum rökum, með svipuðum hætti og varnarsáttmálinn var lögfestur, raunar að tillögu minni og hæstv. ráðherra þegar hún var þingmaður og fleiri ágætra þingmanna, og á síðustu öld þegar menn ákváðu að lögfesta mannréttindasáttmála Evrópu.

Hitt málið, eins og ráðherra nefndi, sem innanríkisráðuneytið hefur á sinni könnu og skiptir gríðarlega miklu máli í því að leiða hér í lög og allt okkar regluumhverfi þessi mannréttindi fatlaðs fólks, sáttmála Sameinuðu þjóðanna þar um, er eftirlit með framkvæmd samningsins. Það er einhvers konar mannréttindastofnun eða annar aðili sem hefur eftirlit, m.a. með þessari löggjöf þar sem verið er að tryggja réttindi fólks, það þarf að hafa eftirlit með því að þessi lög séu virt og þau séu ekki aðeins stafur á blaði heldur séu þau í framkvæmd. Verkinu er auðvitað ekki lokið fyrr við höfum komið á fót eftirliti í samræmi við þau ákvæði sem má finna í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Því miður er þetta ekki eina málið sem við eigum eftir ólokið. Ég held að ég muni það rétt að Ísland hafi staðfest sáttmálann árið 2006, það séu að verða tíu ár síðan við gerðum það án þess að okkur hafi tekist að ljúka nauðsynlegum breytingum á lögum og reglum og setja upp þær stofnanir sem setja þarf upp til að við séum búin að fullgilda sáttmálann eða getum lögfest hann. Þarna verður að segja eins og er að við erum orðin óvenjulega aftarlega á merinni hvað þetta varðar í samanburði við aðrar þjóðir. sem fjölmargar hafa fyrir löngu síðan lokið þessum þáttum. Því miður er það ekki eina málið sem eftir er hjá innanríkisráðuneytinu sem upp á vantar heldur mjög víðtæka lagasetningu í velferðarráðuneyti og sumt þar sem er í raun og veru orðið algerlega óskiljanlegt að komi ekki hingað til þingsins, m.a. frumvörp sem hafa verið þar tilbúin árum saman um að banna mismunun á vinnumarkaði og önnur slík sjálfsögð löggjöf um að réttindi fatlaðs fólks séu hin sömu og annars fólks í landinu. Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri og hvetja ríkisstjórnina til að hafa það alveg skýrt hvora leiðina eigi að fara, það sé verið að vinna eftir sömu aðferðafræði í báðum lykilráðuneytunum í málinu, og brýna ekki síst velferðarráðuneytið til að taka til hendinni, en um leið og þakkað er fyrir þetta frumvarp hvetja nýjan innanríkisráðherra með síðasta málið sem stendur upp á, þ.e. um eftirlit með framkvæmd samningsins.