144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil fagna framkomu þessa frumvarps og ekki síst þeim þætti þess sem lýtur að því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir því að við getum loksins fullgilt eða lögtekið samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það hefur verið býsna löng meðganga hjá okkur og veitir ekki af að fara að bretta upp ermar og reyna að klára það mál. Reynt var að koma á það skriði á síðasta kjörtímabili og að einhverju leyti er afrakstur þeirrar vinnu nú að birtast. En ég hygg að síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Hjörvar, hafi farið rétt með þegar hann nefndi að það stendur enn talsvert út af sem lýtur að löggjöfinni á sviði málefna fatlaðra sjálfra, þótt hér sé tekið á mikilsverðu máli sem er í lögræðislagahlutanum og heyrir undir innanríkisráðuneytið.

Í fljótu bragði verður ekki annað séð en að vandað hafi verið til verka, þótt auðvitað séu hér álitamál sem hæstv. ráðherra nefndi nokkuð í framsögu sinni og komið hafa fram í andsvörum og umræðum. Mér finnst í fyrsta lagi aðdragandi frumvarpsins athyglisverður. Það er rakið í greinargerð að á árinu 2012 hafði innanríkisráðuneytið frumkvæði að fundargerð um mannréttindamál og þá var í mótun metnaðarfull landsáætlun í mannréttindamálum. Þáverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, var mjög áhugasamur um þá vinnu og ekki kannski síður aðstoðarmaður hans, Halla Gunnarsdóttir, og við sem sátum með hv. þingmanni, þáverandi hæstv. ráðherra, í ríkisstjórn fylgdumst auðvitað með málinu því að hann miðlaði upplýsingum um það starf og þurfti náttúrlega einstöku sinnum liðsinni, fjárveitingar og annað því um líkt, til að koma hlutunum eitthvað áfram.

Mér finnst hins vegar aðdragandinn að þessu líka merkilegur í þeim skilningi að þarna sprettur þetta að hluta til, þ.e. það af því sem á sér rót í þessu starfi, af fundahöldum þar sem leiddir eru saman þolendur eða þeir sem hafa sætt nauðungarvistun, aðstandendur, fagfólk og hagsmunaaðilar. Það byrjar með öðrum orðum með fundahöldum og samráði í grasrótinni hjá þeim sem málið beinist að. Það leiddi síðan til frekara samstarfs og fundahalda og óformlegur samráðshópur lauk því með einhvers konar umræðuskjali til ráðherra með ýmsum ábendingum o.s.frv. Þetta finnst mér vera til eftirbreytni og væri betur að sæi í greinargerðum fleiri frumvarpa að að baki lægi meðal annars ferill af þessu tagi. Síðan sé þá unnið með málin í opnu ferli þar sem menn koma athugasemdum að, eins og gengur.

Varðandi að glöggva mig á því atriði þá skildi ég hæstv. ráðherra svo að hvað varðaði fullgildingu eða lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks stæði ekki annað eftir á því sviði nema eftirlitsþátturinn, sem innanríkisráðuneytinu bæri að klára. Það væri auðvitað fróðlegt að fá upplýsingar í tengslum við þetta mál, hvar verkið í heild sinni stendur, hvort einhver hefur yfirsýn yfir það. Nú er af og til verið að spyrja um þetta hér og þá hafa svörin oftast verið þau sömu, að verið sé að fara yfir og bera saman löggjöf og skoða hverju þurfi að breyta hér og þar.

Í öðru lagi varðandi skýrslu eða ábendingar úr skýrslum Evrópunefndarinnar um pyndingar eða varnir gegn pyndingum og ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð má líka skilja það svo að hér sé komið að fullu og öllu til móts við ábendingar nefndarinnar eftir heimsókn hennar til Íslands og þær athugasemdir sem hún hefur gert, sem kemur fram að hafi aðallega snúið að tilteknum ákvæðum lögræðislaganna og framkvæmd nauðungarvistana á grundvelli þeirra, sem kemur ekkert á óvart að athugasemdir hafi verið gerðar við og lengi hefur verið rætt um að þyrfti að lagfæra.

Það þarf ekki að ræða hversu alvarleg aðgerð það er að svipta menn frelsi, hver sem í hluta á, og hversu geysilega vandasamt er að búa þannig um hnúta í þeim efnum að það fari sem best á því og aldrei sé lengra gengið en óumflýjanlegt er. Ég tek eftir því í tengslum við flutning málsins eða framkvæmdarinnar að einhverju leyti, frá ráðuneytinu til sýslumannsembættanna, að sérstaklega er komið að því að þá sé heimilt að fela einu tilteknu sýslumannsembætti verkefnið. Það er í samræmi við þróun sem hefur verið í gangi að undanförnu og gefist ágætlega, að sérhæfa tiltekin sýslumannsembætti og fela þeim verkefni sem þau gerast þá mjög sérhæfð eða sérfróð í, það gafst t.d. ágætlega varðandi hina vandasömu útfærslu á framkvæmd á greiðslu miskabóta til þolenda þeirra sem höfðu á heimilum á ábyrgð ríkisins sætt vondri meðferð. Ég geri ráð fyrir því að ráðuneytið hafi í sigti einhver tiltekin sýslumannsembætti í þeim efnum og væri gaman að vita hvar menn sjá fyrir sér að það yrði vistað í hinu nýju og endurskipulagða umhverfi sýslumannsembættanna, þar sem þeim hefur verið fækkað eins og kunnugt er.

Að lokum nokkur orð um það sem rætt var áðan um fyrirkomulag framkvæmdarinnar þegar um nauðungarvistun er að ræða. Mér finnast mjög athyglisverðar upplýsingarnar sem koma fram á bls. 10 í greinargerð með frumvarpinu, sú snögga þróun sem hefur greinilega orðið á milli ára, frá 2013–2014, að beiðnirnar hafa að stórum hluta til færst frá aðstandendum yfir til félagsþjónustu eða samsvarandi fulltrúa hjá sveitarstjórnum. Það gerist aðeins á einu ári sem er mjög athyglisvert, af því að í lögunum hafa báðir farvegirnir verið færir eins og þetta hefur verið að undanförnu. Maður veltir því fyrir sér hvað sé þar á ferðinni, er það umræðan, er það vitundarvakningin, er það einfaldlega það að fólk hafi kannski ekki áttað sig á því að það átti annan kost en standa í þessu sjálft? Það er mikið umhugsunarefni því að það kannast ég svo sannarlega við að þetta hefur verið alveg geysilega erfitt hjá fjölskyldum þar sem aðstandendur hafa sjálfir orðið að standa í þessu, oft með alveg gífurlega erfiðum eftirköstum innan viðkomandi fjölskyldu. Við þekkjum öll til í hópi vina eða ættingjahópi eða skólasystkina eða annars staðar þar sem slíkir hlutir hafa gerst. Þetta finnst mér lofa góðu og í sjálfu sér vera rök fyrir þeirri millileið sem hæstv. ráðherra leggur í raun til, að gera það að almennri reglu að þetta séu félagsmálayfirvöld en hitt sé þó heimilt í undantekningartilvikum sem kunna að vera ástæður til. Ég er þó svolítið hugsi yfir röksemdunum sem færðar eru fram, að ekki sé endilega alltaf unnt að koma því við að félagsmálayfirvöld geti tekið málið að sér um helgar og á almennum frídögum. Er það alveg nógu gott að kerfið hjá okkur er ekki virkt allan sólarhringinn? Þarf ekki að vera einhvers konar bakvakt eða eitthvað tryggt, a.m.k. í stærstu sveitarfélögunum? Það ætti nú ekki að vera ofverkið. Nú eru þessi mál almennt þannig að þau eru unnin í samstarfi sveitarfélaga á stórum svæðum þar sem ekki er nægjanlegur íbúafjöldi á bak við til að reka þetta í viðkomandi sveitarfélagi, svæðin á bak við eru því yfirleitt nokkuð stór. Það ætti ekki að vera ofverkið að sjá til þess að einhvers konar farvegur væri opinn allan sólarhringinn, árið um kring. Þá ætti enn síður að þurfa að reyna á það undantekningarúrræði að aðstandendur gætu sjálfir og beint farið fram með beiðnina, sem maður sér í sjálfu sér ekki endilega ástæðu til að útiloka svo fremi sem hinn kosturinn sé alltaf í boði og svo fremi sem menn séu vel upplýstir og það rækilega kynnt að menn eiga kost á því að koma upplýsingum á framfæri, leita aðstoðar og láta slíka aðila sjá um þetta.

Það er alveg ljóst að nánustu aðstandendur koma við sögu, það hverfur ekkert út úr myndinni þó að félagsmálayfirvöldin annist um að leggja fram beiðnina, einfaldlega vegna þess að upplýsingarnar um ástand mála koma yfirleitt úr fjölskyldu þess sem á í hlut, þótt auðvitað geti það gerst eftir öðrum leiðum, svo sem eins og þeirri að félagsmálayfirvöld fái málið beint í fangið. Ærið oft er það þó væntanlega þannig að það er maki eða vandamenn eða vinir sem fyrstir átta sig á því að svo sé komið að ekki sé um annað að ræða en að fara fram á aðgerð af þessu tagi. En það er gríðarlegur munur á að þurfa ekki að standa fyrir henni, skrifa undir beiðnina og bera ábyrgð á henni sem slíkri, og þarf ekki að ræða um það meir.

Ég fyrir mitt leyti, verandi enginn sérstakur sérfræðingur í þessu að sjálfsögðu, hallast að því að sú leið sem frumvarpið leggur upp sé ágæt eða sé að mörgu leyti líklega heppileg, í bili a.m.k. Ég er sömuleiðis hrifinn af því að hafa varanlega sviptingu ekki inni. Ég er meira en tilbúinn til að ganga lengra í þeim efnum en frændur okkar Norðmenn, enda kemur einhvers staðar fram hér að þeir hafi einmitt fengið athugasemdir við að hafa þetta ekki alltaf einhvers konar tímabundið úrræði með framlengingarmöguleikum.

Frú forseti. Þetta var það sem ég vildi rétt tæpa á og ætla ekki að lengja umræðuna meira af minni hálfu.