144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður lauk réttilega lofsorði á þá vinnuaðferð sem höfð var við undirbúning þessa frumvarps og fólst í því að leiddir voru saman allir þeir sem með einhverjum hætti geta tengst erfiðum málum af þessu tagi; læknar, félagsráðgjafar, aðstandendur og síðast en ekki síst þeir sem hafa mátt þola þá nauðung sem felst í því að vera nauðungarvistaður eða sviptur lögræði.

Mig langar til að rifja upp fyrir hv. þingmanni að sá hópur sem hv. þm. Ögmundur Jónasson setti á laggir á þeim tíma sem hann gegndi stöðu innanríkisráðherra var ræddur á sínum tíma í ríkisstjórn sem við áttum báðir sæti í. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom með það mál inn í ríkisstjórn vegna þess að okkur hafði þá borist það sem okkur fannst heldur svakalegar athugasemdir um að Ísland stæði ekki við skuldbindingar varðandi framkvæmd Evrópusamnings um varnir gegn pyndingum. Það var þess vegna sem viðbragðið var svona skarpt. Af því að hv. þingmaður veltir fyrir sér hvað veldur því að það er stökk á milli áranna 2013 og 2014, að því er varðar flutning á beiðnum frá fjölskyldum yfir til félagslegu hliðarinnar, er það í beinu framhaldi af starfi þessa hóps og þeirri umræðu sem hann vakti, eins og hv. þingmaður man örugglega leiddi það til töluverðra umræðna í fjölmiðlum um þessi mál. Líkt og kemur fram hér var haldin mjög lofsverð fundaröð á vegum ráðuneytisins og það er akkúrat sú opna umræða sem leiddi til þessara breytinga, að mínu mati, vegna þess að áherslan var akkúrat á það atriði sem er eitt af hinu jákvæðasta, annað af tveimur mjög jákvæðum, í þessu frumvarpi, þótt ég telji að ganga mætti lengra, að flytja andlag beiðninnar yfir á félagslega geirann hjá stéttarfélaginu.