144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. Ég fagna þessu máli og held að í því sé að finna mjög mörg atriði sem öll horfa til heilla og flestum þeirra er ég sammála, hugsanlega með einni eða tveimur undantekningum. Mér fannst líka mikið til um þann skilning og varfærni sem stafaði af máli hæstv. ráðherra. Ég tel að málið sé í góðum höndum hjá henni. Vitaskuld eru mál af þessu tagi ekki pólitísk en þau varða það sem er kannski helgast í lífi sérhvers einstaklings sem er frelsi hans. Þess vegna verða menn að ganga mjög hægt um gáttir þegar um þessi mál er farið höndum. En mér sýnist að allur umbúnaður málsins sé góður, alveg frá fyrsta skrefi í tíð hv. þm. Ögmundar Jónassonar þegar málinu var hrundið af stað af illri nauðsyn, og til þessa dags að menn hafi gætt þess. Þegar ég tala um illa nauðsyn þá var það þannig að bæði innlend félagasamtök og erlendir aðilar höfðu bent á að lögin sem við höfum til þessa haft væru ekki fyllilega í samræmi við alþjóðlega sáttmála og þau tálmuðu m.a. leið okkar að því að geta fullgilt eða eftir atvikum lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. En það skipti ekki síður máli að félagasamtök sem að þessu máli starfa hér innan lands höfðu líka gert athugasemdir. Saman lagði það allt til þess að farin var sú leið þar sem kallaðir voru saman allir þeir sem málið varðar með einhverjum hætti og út úr því komu tillögur sem er að finna hér og eru mjög jákvæðar. En það komu að vísu fleiri tillögur líka út úr þessum hópi og það væri út af fyrir sig fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra skýra frá því hvort hún ætli sér að hrinda þeim í framkvæmd síðar. Það var sérstaklega tekið fram í frumvarpinu að þetta væri einungis hluti þeirra tillagna sem þar komu fram.

Það sem mér finnst skipta þarna mestu máli er það sjálfstæði sem hæstv. ráðherra tekur sér fyrir hönd Íslendinga að fara ekki alltaf að fordæmi útlendinga en mér finnst við oft hanga allt of fast aftan í — ég vil nú ekki segja rassgarnarenda Norðmanna og Dana, en það er nú þannig að menn líta mjög oft til fordæma þangað. Hér er stigið stærra og lengra skref til réttindaáttar en t.d. Norðmenn gera. Það finnst mér skipta mjög miklu máli að þetta frumvarp heimilar ekki varanlega sviptingu. Það er að mínu viti mjög mikil framför.

Það sem skiptir síðan næstmestu máli er sú varfærna slóð sem hæstv. ráðherra fetar á millum þess hverjir mega óska eftir nauðungarvistun. Ég held að það sé út af fyrir sig — ég vil gera þá játningu að mér fannst það ekki skynsamleg leið sem hæstv. ráðherra leggur til hér í frumvarpinu en ég aðeins hugsaði upp á nýtt undir hennar ágætu ræðu um þennan kafla laganna og komst að þeirri niðurstöðu að það væri a.m.k. einnar messu virði að skoða þá leið. En ég tek þó hjartanlega undir það sem hæstv. ráðherra sagði, að þetta er eitt af því sem nefndin þarf að skoða mjög vel.

Vafalítið liggur á að afgreiða þetta frumvarp og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að menn gerðu kannski fátt betra en að kafa ofan í það og reyna að afgreiða það á vordögum. Nú er mér ekki alveg ljóst hversu miklar nauðir reka til að samþykkja þetta en þetta er mál af því tagi sem menn eiga að sitja yfir.

Það atriði sem er að mínu viti kannski næstmikilvægast er að horfið er frá því sem verið hefur reyndin, a.m.k. í fortíðinni, að það var hlutskipti aðstandenda í flestum tilvikum að óska eftir nauðungarvistun. Auðvitað var það gert af hræðilegri nauðsyn en það hafði hins vegar líka hræðilegar afleiðingar í mjög mörgum tilvika. Þess vegna er ákaflega jákvætt að áherslan hefur verið á að það séu félagsþjónustur sveitarfélaga sem óski, a.m.k. formlega, eftir því að einstaklingur sæti slíkri frelsisskerðingu.

Ég er þeirrar skoðunar eða ég var það áður en hæstv. ráðherra hélt ræðu sína, að stíga ætti skrefið algerlega til fulls. Það sem fékk mig til að efast var sú ágæta röksemdafærsla hæstv. ráðherra um að hugsanlega kynnu að vera stöður uppi í fámennum sveitarfélögum þar sem eru of veikburða félagsþjónustur til að geta á ögurstundu gripið til slíks úrræðis. En þá ætla ég að beina því til hæstv. ráðherra að skoða hvað er á bak við töfluna á bls. 10, þ.e. ef menn skoða hvar 30% þessara tilvika liggja þar sem enn er óskað eftir nauðungarvistun af hálfu aðstandenda. Er það úti á landi í þessum fámennu sveitarfélögum eða ekki? Ef hæstv. ráðherra kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki finnst mér leiðin vera greið til að taka þetta algerlega út úr lögunum.

Það má kannski segja að aðalávinningurinn sé það sem hv. þm. Helgi Hjörvar gerði að fagnaðarefni í ræðu sinni; með þessu eru menn að ryðja burt tálmum gagnvart fullgildingu samningsins um réttindi fatlaðs fólks. Einnig skiptir það auðvitað miklu máli fyrir Ísland, sem lítur á sig sem eitt af framlínuríkjum hvað varðar baráttu fyrir mannréttindum, að það sé að minnsta kosti búið að bregðast við þeim ábendingum sem komu frá erlendum eftirlitsaðilum. Ég verð að minnsta kosti að gera þá játningu að mér brá í brún og hafði ekki hugmynd um að svona væri staðan hjá okkur þegar við breyttum löggjöf okkar á grundvelli ábendinga frá þeim sem hafa eftirlit með Evrópusamningum um varnir gegn pyndingum. Aldrei hefði ég sett Ísland í þannig samhengi en þannig var nú raunin samt.

Einnig skipta máli ýmsar minni háttar breytingar sem fram koma í þessu frumvarpi eins og til dæmis það að núna er gert skylt að leita eftir áliti trúnaðarlæknis, ef menn telja að þörf sé til þess, áður en skerðing fer fram. Áður var einungis leitað eftir umsögn áður en hún hafði átt sér stað. Það skiptir líka máli frá mínum bæjardyrum séð að gert er ráð fyrir aukinni kröfu til að afla sönnunargagna þegar mál er tekið fyrir dómara til að svipta einhvern lögræði. Samkvæmt þessu frumvarpi sé ég ekki betur en að dómara, sem áður hafði heimild til að krefjast sönnunargagna, sé núna skylt að leita þeirra. Við þekkjum náttúrlega dæmi úr fjölmiðlum um það, ekkert mjög gömul, þar sem það hefði hugsanlega getað breytt öllu ef þessi kvöð hefði þá verið á dómurum.

Í fjórða lagi finnst mér það vera framfaraspor að bæði þeim sem vistaður er í nauðung og líka fjölskyldu hans eða þeim sem að honum standa sé boðin ráðgjöf. Það skiptir miklu máli og tengist síðan því sem ég ætlaði að gera að svolitlu umvöndunarefni, það er 14. gr. sem fjallar um ráðgjafa. Í henni er um það rætt að þeim, þ.e. trúnaðarlæknum eða vakthafandi hjúkrunarfólki eða læknum og trúnaðarlæknum, sem á móti þeim taka sem sviptur er frelsi sínu með þessum hætti og vistaður er á stofnun er gert skylt að gera ráðgjafa hans viðvart, ef hann hefur ráðgjafa. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé um svo mikið og sterkt inngrip í líf, vitund og sjálfstæði einstaklings að ræða að það eigi að vera kvöð á stjórnvaldinu að skipa þeim ráðgjafa sem ekki hafa slíkan. Oft er það þannig að ef um fólk í þessari stöðu er þannig ástatt að það hefur ekki orðið sér úti um ráðgjafa — það getur líka vel verið að jafnvel þótt því sé boðinn ráðgjafi sem það getur þá kvatt til hvenær sem það vill, þannig eru náttúrlega lögræðislögin núna, að viðkomandi mundi ekki vilja sjá að fá slíka ráðgjöf. Hún þarf samt að standa til boða og það þarf að vera einhver tiltekinn einstaklingur sem skipaður hefur verið ráðgjafi slíks manns og hann viti af því að honum stendur það stöðugt til boða að fá hann sér til ráðgjafar. Þetta er eins konar trúnaðarmaður í reynd sem á að verja rétt hans, ráðleggja honum heilt í því sem viðkomandi sem sætir frelsisskerðingu upplifir oft sem harkalega baráttu kerfisins gegn sjálfum sér sem einstaklingi. Þá getur það skipt miklu máli að ráðgjafi af þessu tagi standi til boða.

Þetta voru í grófum dráttum aðalatriðin sem ég vildi koma hér fram. Það eru þá fyrst og fremst tvær ábendingar frá mér, annars vegar um að skylt sé að skipa einstaklingi, sem sviptur er frelsi sínu með nauðung, ráðgjafa. Í öðru lagi tel ég að skoða eigi mjög vel og þá með hliðsjón af niðurstöðu af rannsókn á þeim 30% nauðungarvistana sem koma vegna beiðni aðstandenda hvort ekki eigi að stíga skrefið til fulls og útiloka þá leið algerlega. Það er náttúrlega eitrið sem skemmir í öllum stöðum sem upp koma í tengslum við svona mál. Það vitum við öll og flest okkar hafa áreiðanlega, bæði sem alþingismenn og einstaklingar, margoft rekist á slóð slíkra mála.

Hæstv. ráðherrar sagði í ágætri framsögu sinni að eitt af markmiðum þessa frumvarps væri að fækka nauðungarvistum. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra mundi í lokaræðu sinni hér skýra betur út fyrir mér hvernig frumvarpið eigi að fækka nauðungarvistunum. Ég geri mér grein fyrir því að sú tala sem ég fór með hérna áður um ráðgjafa, en byggist þó aðallega á þeim réttindum sem slíkir einstaklingar hafa samkvæmt gildandi lýðræðisreglum, fela auðvitað í sér stuðning meðan á nauðungarvistun stendur. Hér er eitt af markmiðunum, að auka stuðninginn líka í kjölfar nauðungarvistunar. Ég rakst á það í frumvarpinu að vissulega standi þeim sem lent hefur í slíkum hremmingum til boða ráðgjöf að henni lokinni, en er einhver annar stuðningur sem honum er boðinn með einhverjum hætti? Ef svo er vildi ég gjarnan að hæstv. ráðherra greindi mér frá því. Og svona eitt að lokum, ef hæstv. ráðherra gæti svarað því sem vafðist pínulítið fyrir mér, reyndar er það tvennt. Það er mikið framfaraspor að flytja skrána um þá sem sviptir eru sjálfræði og um forráðamenn þeirra eða trúnaðarmenn og ráðgjafa úr ráðuneytinu yfir í Þjóðskrá. Ég velti samt fyrir mér: Hefði ekki átt að setja það til ákveðins embættis eins og landlæknisembættisins sem er vant að fara með slíkar trúnaðarupplýsingar?

Að lokum er síðasta spurningin þessi: Ráðherra fer varfærna og svolítið sniðuga leið meðalhófs til að reyna að koma í veg fyrir að upp spretti stöður í kjölfar þess að aðstandendur óski eftir nauðungarvistun og það er sagt í greinargerðinni með þeim orðum að þeir þurfi ekki að gera það formlega. En kynni að vera að einstaklingur sem leitar af miklum þrótti og festu eftir upplýsingum um það hver það var sem kom honum í þessa stöðu, sem eru náttúrlega mýmörg dæmi um, geti í krafti upplýsingalaga með einhverjum hætti krafist vitneskju um hver það var sem óskaði eftir því við yfirvaldið að slíku (Forseti hringir.) úrræði yrði beitt?