144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp er komið fram, það er gríðarlega mikilvægt skref í þá átt að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eins og fram kemur í greinargerð og ræðum. Ég verð að segja eins og er að þegar ég las frumvarpið leið mér svolítið eins og þegar við fórum með hv. allsherjar- og menntamálanefnd á staðinn þar sem verið er að byggja fangelsið á Hólmsheiði. Það er mjög áhugavert en hefur yfirbragð alvarleika vegna þess að hér erum við að búa til ferla úr kerfi til að svipta fólk frelsinu og það verður varla alvarlegra en það. Af þeirri sök einni þykir mér strax mjög jákvætt og mjög mikilvægt skref að heimila ekki lengur varanlega sviptingu lögræðis.

Eitt af því sem kom mér pínulítið á óvart við að lesa þetta er það hversu rúmar heimildirnar eru í raun og veru í núgildandi lögum. Annað sem ég tók eftir, og krossbrá þegar ég las það, er að í núgildandi lögum sé hægt að svipta mann lögræði með úrskurði dómara ef þörf krefur, ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Þetta kom mér svolítið á óvart og ég hefði mikið gagn af því að þekkja betur hvort þessu hafi nokkurn tíma verið beitt og undir hvaða kringumstæðum maður mundi beita þessu, ég get einhvern veginn ekki ímyndað mér það.

Sem betur fer stendur til í frumvarpinu að laga þetta með því að gera þetta ákvæði einungis virkt ef a-liður eða c-liður sömu greinar gildir einnig, en það er ef viðkomandi er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests, eins og samkvæmt c-lið, með leyfi forseta:

„Ef hann vegna líkamlegs vanþroska, heilsubrests eða annarra vanheilinda á óhægt með að ráða persónulegum högum sínum eða fé og æskir sjálfur lögræðissviptingar af þeim sökum.“

Ég velti því hins vegar fyrir mér með þessari breytingu, eins jákvæð og hún nú er á eigin spýtur, hvers vegna hennar er þörf á annað borð, þ.e. eins og hún kemur fram í frumvarpinu, b-liðurinn sem orðast svo í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé og einhver þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í a- og c-lið eiga við um viðkomandi.“

Ég velti fyrir mér hvenær maður mundi nota b-liðinn ef það þarf hvort sem er að fara eftir a-liðnum og c-liðnum. Eru ekki a- og c-liðurinn nóg? Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir að ávana- og fíkniefni séu forsenda frelsissviptingar af þessu tagi, af þessum forsendum. Mér finnst það skrýtið og alveg þess virði að skoða sérstaklega hvernig það er komið til að þetta sé þarna. Mér finnst það afskaplega skrýtið á sama hátt og mér þætti skrýtið ef það væri dregið upp sérstaklega í lögum hvaða geðsjúkdómar það væru eða hvers eðlis þau elliglöp væru sem væru forsenda frelsissviptingar. Mér finnst undarlegt að það séu svona nákvæmar útfærslur á því hvaða ástæður liggja að baki þessu. Prinsippið hlýtur að vera það að viðkomandi sé ófær um að hafa lögræði og vitaskuld að það sé honum fyrir bestu og síðast en ekki síst að það sé fullkomlega nauðsynlegt.

Það er annað sem mig langar aðeins að koma inn á í þessu sambandi. Við verðum að hafa í huga að mistakaþolið í þessum málum er lítið sem ekkert. Þegar kemur að fangelsisdómum eða annarri tegund af refsingum gerum við ráð fyrir því sem samfélag að af og til fari eitthvað úrskeiðis. Sönnunargögnin eru misvísandi, einhver lýgur fyrir rétti, eitthvað því um líkt. Fyrr eða síðar mun eitthvað klikka og við erum með ýmsa ferla til að gera ráð fyrir þessu, sem betur fer, eins og við eigum að hafa. En það eru ákveðnir hlutir sem samfélagið hefur ákveðið að gera ekki yfir höfuð vegna þess að mistakaþolið er ekkert. Eitt besta dæmið um það er dauðarefsing, ástæðan fyrir því að við notum ekki dauðarefsingu í nokkrum siðmenntuðum ríkjum er sú að mistakaþolið er ekkert, við leyfum engin mistök. Um leið og orðið hafa ein mistök þá er fyrirbærið hætt að vera réttlátt undir nokkrum kringumstæðum. Það er alla vega mitt viðhorf gagnvart dauðarefsingu og vonandi sem flestra.

Mistakaþolið hér, að því gefnu að um sé að ræða tímabundnar lögræðissviptingar, er kannski ekki ekkert en ég mundi samt leggja til að það væri mjög nálægt því að vera ekkert. Eðli málsins samkvæmt, þegar einhver er sviptur lögræði á forsendum sem viðkomandi telur ekki réttmætar, í gegnum þetta ferli, með svona lögum, mundi ég búast við því að traust einstaklingsins til samfélagsins væri sennilega fullkomlega óendurbyggjanlegt. Ég velti fyrir mér hvernig sá einstaklingur gæti nokkurn tíma öðlast traust til samfélagsins eða sinna nánustu eða kerfisins aftur. Ég reyni að setja mig í þann hugarheim og ég sé einhvern veginn ekki hvernig það væri mögulegt. Þess vegna ætla ég að leggja til að við förum varlega hér en þegar kemur að einhverjum ferlum eins og þegar kemur að því að fangelsa menn fyrir glæpi. Þetta er annars eðlis.

Sem betur fer gerum við ráð fyrir því að mistök geti átt sér stað eins og við þurfum að gera þannig að mistakaþolið er kannski ekki alveg ekkert. Það er þó með semingi sem ég segi það vegna þess að mér finnst í raun og veru að það ætti að vera ekkert. Það þarf að vera algerlega skothelt. Í raun og veru finnst mér þetta ekki mega klikka nokkurn tíma.

Eitt það síðasta sem ég ætla að segja um þetta annars mjög mikilvæga og góða mál er það að mér finnst, af þeim ástæðum sem ég hef nefnt hér, þetta krefjast þess að afskaplega vel verði farið yfir málið. Þess vegna finnst mér pínulítið óþægilegt hve seint það kemur hingað inn í þingið, en ég er þakklátur fyrir að það sé þó komið; ég vænti þess og geri ráð fyrir að það sé vegna þess að það hafi verið unnið mjög vel. Þetta er eitthvað sem mér finnst allir sem koma að ákvörðunum þurfa að vera fulkomlega sannfærðir um, þ.e. að hvert einasta smáskref í frumvarpinu sé í rétta átt, og það tekur tíma. Það tekur nefndina tíma, það tekur þingmenn tíma og ég geri ráð fyrir að allir séu sammála um þetta. Vissulega er gagn að því að fá umsagnarferlið í gang þegar þetta kemst inn í nefnd. Ég hlakka til þess með semingi að lesa umsagnirnar vegna þess að þetta er umræðuefni sem mér finnst jafn sértækt og fangelsi en samt það mikilvægt að maður verður að skoða þetta eins vel og hægt er.

Sérstaklega finnst mér mikilvægt að við þekkjum mjög vel, öll sem tökum þátt í ákvarðanatöku um þetta mál, hvort og þá hvað hafi farið úrskeiðis í fortíðinni. Ég held að það sé sennilega það sem við ættum að hafa í huga. Það sem ég kem til með að leggja höfuðáherslu á er að vita fyrir víst hvenær fólk hafi talið þetta kerfi hafa klikkað, hvers vegna og hvernig það hafi átt að vera öðruvísi en það í reynd var. Mig grunar að það sé meira en að nefna það að garfa í gegnum allar þær upplýsingar vegna þess að eitthvað segir mér að mjög mikið sé um erfið, siðferðisleg álitamál og kannski liggja ekki allar staðreyndir fyrir. En það eitt og sér segir manni eitthvað þegar allar staðreyndir liggja ekki fyrir í máli eins og þessu.

Það eru aðrir þættir í þessu máli, fyrir utan hversu alvarlegt það er að eðli, sem mig langar að skoða sérstaklega vel í nefnd. Það eru spurningar um upplýsingasöfnun og birtingu. Ég þori ekki alveg að fara með það nákvæmlega hvað mér finnst um þær breytingar sem eru í frumvarpinu. Mér sýnast þær í fljótu bragði vera til hins betra en eins og ég segi þá þykir mér mjög mikilvægt að hvert einasta skref sé í rétta átt og að allir séu mjög sammála um það. Í raun og veru finnst mér að svona lög eigi ekki að samþykkja nema með 100% meiri hluta í sjálfu sér, alla vega í fullkomnum heimi, vegna þess að þetta er þess eðlis.

Það er í raun ekki fleira sem ég hef að segja um þetta mál hér og nú. Ég býst fastlega við því að miklar umræður verði í nefnd um þetta og vonandi í samfélaginu öllu. Vonandi hefur fólk nógu mikinn áhuga á því að hafa þessi mál algerlega á hreinu. Ég hvet alla þingmenn til að fara eins hægt við afgreiðslu þessa máls og mögulegt er án þess að skemma fyrir þeim mikilvægu hagsmunum sem eru í húfi fyrir fólkið sem fyrir þessu verður og aðstandendur þess.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.