144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[21:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef píratinn, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, telur að upplýsingar af þessu tagi séu hugsanlega betur varðar hjá Þjóðskrá en landlæknisembættinu þá tek ég það bara gott og gilt. Hann er mér miklu fremri í að meta það. Það getur vel verið að Þjóðskrá búi yfir betri vörnum.

Síðan er spurning hv. þingmanns fullkomlega lögmæt. Hversu mikilvægt er að verja slíkar upplýsingar? Ég mundi telja að séð frá sjónarhóli þess sem er skráður þarna sem þolandi frelsisskerðingar kunni það, a.m.k. í sumum tilvikum, að vera ákaflega mikilvægt.