144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[21:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt gríðarlega mikilvægt. Nú er kerfið með ýmsar mikilvægar upplýsingar, oft og tíðum er það algerlega óhjákvæmilegt, sérstaklega þegar kemur að heilbrigðisupplýsingum og því um líku. En þegar kemur að svona málum þá hugsa ég að upplýsingarnar séu eins persónulegar og þær geta orðið. Við þurfum að ímynda okkur að upplýsingarnar geti farið á kreik vegna þess að eitthvert tölvukerfi hafi ekki verið nógu vel uppfært eða vegna þess að milljónir hakkara um allan heim eru alltaf að leika sér að því að brjótast inn í kerfi. Þetta er raunveruleikinn sem við búum við í dag. Við þurfum alltaf að gera skaðamat. Það getur verið pínlegt, svo fastar sé ekki að orði kveðið, þegar kemur að svona viðkvæmum upplýsingum. Auðvitað vill maður segja að það sé engin hætta á því að svona viðkvæmar upplýsingar fari í dreifingu.

Annað gott dæmi er nú til umræðu hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd í öðru máli, en það varðar skráningu upplýsinga um börn í skólum. Það getur þurft að safna saman upplýsingum um líðan barna og félagslegar aðstæður — og aftur: Það eru yfirleitt eins persónulegar upplýsingar og hugsast getur. Þá verðum við að spyrja: Hver er skaðinn ef þetta fer á flakk og hvað í ósköpunum ætlum við að gera í því? En auðvitað fyrst og fremst: Hvernig ætlum við að hindra að það gerist til að byrja með? Þetta verða alltaf stærri og stærri spurningar með tímanum. Það er algengur misskilningur að tölvuöryggi sé að batna í heiminum rétt eins og hraði tölva og minnismagn er að aukast, að öryggið sé að aukast líka, en það er eiginlega öfugt. Öryggið í tölvum og á internetinu hefur verið að versna hratt undanfarin ár. 2014 er hræðilegasta ár tölvuöryggis í manna minnum. Þetta verða stærri og stærri spurningar og við þurfum að fara varlegar eftir því sem við söfnum meiri upplýsingum vegna þess að það eru svo ofboðslega gagnlegt.