144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[21:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem orðið hefur um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Ég ætla að reyna að bregðast við þeim spurningum og athugasemdum sem komu fram að því leyti sem ég get gert í lokaræðu minni. Einhver atriði eru þess eðlis að ég tel að skoða þurfi þau nánar í gögnum sem ég hef ekki hér aðgengileg og með þeim fyrirvara að minni mitt sé ekki að bregðast.

Fyrst varðandi það að alveg rétt er að málið kom fram með seinni skipum. Ég lagði hins vegar gríðarlega mikla áherslu á að það kæmi fram á þessu vorþingi, bæði af því að málið var komið í þann búning að óhætt var að leggja það fram eftir mjög mikla vinnu, eins og hér hefur verið rætt og ég ætla að koma nánar að. Og eins af því að mikilvægt er að þau atriði er lúta að fullgildingu samnings um réttindi fatlaðs fólks birtist hér í þinginu og af minni hálfu í innanríkisráðuneytinu legg ég áherslu á að sú vinna gangi eðlilega fram og þess vegna taldi ég brýnt að málið kæmist á dagskrá á vorþingi.

Ég vil síðan segja að það verklag sem haft var í aðdraganda frumvarpsins og það samráðsferli og fundahöld sem voru á síðasta kjörtímabili vegna þessa máls — ég vil taka fram að þetta er einmitt mál af þeim toga sem er þvert á allar girðingar, þetta er mál sem varðar grundvallarmannréttindi. Hæstv. þáverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hélt mjög vel á því að koma þessu máli af stað og ég tel að það hafi tekist vel og ég veit að þeir sem hafa unnið með málið í ráðuneytinu telja að þetta samráðsferli hafi reynst mjög árangursríkt. Ég er ekki í vafa um að það hjálpar líka til með það hvað málið er að mínu viti í góðum búningi þegar það kemur hér inn í þingið.

Ég ætla aðeins að snúa mér að því sem rætt var um varðandi samninginn um fatlað fólk. Eins og hér hefur fram komið stendur eitt mál enn þá eftir inni í ráðuneytinu og það eru þeir eftirlitsþættir sem þetta mál varðar. Þau mál eru í vinnslu núna og unnið er í samráði við nokkuð mörg ráðuneyti. Samstarf við velferðarráðuneytið gengur ágætlega og nýlega tel ég að innanríkisráðuneytið hafi upplýst velferðarnefnd um það hvernig þessari fullgildingu vindur fram. Við munum nú snúa okkur að því í innanríkisráðuneytinu að komast áfram með þennan síðasta þátt málsins hvað okkur varðar.

Síðan varðandi þær spurningar, athugasemdir og tillögur sem hafa komið fram vegna þessa máls þá er það nú svo, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að fjölskyldurnar verða aldrei fjarri og þar eru ástvinirnir ávallt næstir, þeir sem næst standa og eru alltaf einhvers staðar í menginu. Við vitum að aldrei er hægt að taka það alveg út fyrir sviga. En þau sjónarmið eru uppi, eins og ég hef rakið hér og farið yfir, að mikilvægt sé að fjölskyldur komist aðeins fjær þessari þyngstu ákvörðun.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það að sú umræða sem hefur spunnist vegna þessa máls hefur orðið til þess að fjölskyldurnar hafa leitað meira til félagsþjónustunnar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að svo sé. En ég vil kannski hafa mína skoðun umfram það sem segir í athugasemd við einstök ákvæði laganna, bara á grundvelli þess sem ég hef lesið um þetta mál. Við vitum reyndar um smærri sveitarfélögin að þar er það ekki þannig að sveitarfélög séu með vakt vegna þessara mála. Það getur verið að við þurfum að fara í það að skoða þann þátt málsins. En við vitum að í allra fámennustu sveitarfélögunum er þetta þungbært og það þarf auðvitað að líta til þess.

Svo vil ég af mínu takmarkaða viti koma því sjónarmiði áleiðis að vegna þess hversu nánar fjölskyldur eru kunni að vera að fjölskylda vilji í einhverjum tilvikum — spurningin er, viljum við útiloka það? — koma að slíkum málum. Og þarna liggur þessi vandmeðfarna lína. Ég legg þetta fram sem mína tillögu. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, þetta er ákveðinn millileið. Mér þykir þetta vera varfærin leið en ég veit að þau sjónarmið munu koma fram fyrir nefndinni að það eigi að ganga lengra. Varðandi töfluna á bls. 10, það er eitt af því sem ég þyrfti bara að fá tækifæri til að skoða nánar hvaða sveitarfélög eru þarna helst undir, og ég held að við getum fengið svör við því. Ég var búin að svara með þessi 30% en við erum að tala um þau sveitarfélög sem eru ekki með vakt um helgar eða á frídögum.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði um 14. gr. Það var reyndar á grundvelli ábendinga sem komu í umsagnarferli sem farið var í það að tengja saman vakthafandi lækna og ráðgjafa. Það er þannig núna að ráðgjafi starfar á vegum ráðuneytisins og það er greitt úr ríkissjóði. Það er ópersónulegur aðili þannig að það samband er fyrir hendi, en þarna var verið að opna betur á að hann væri þá í nánu sambandi á þessum erfiðu stundum.

Ekki er búið að ákveða — ég tek þetta ekki alveg í röð — hvaða sýslumannsembætti mun hafa þetta með höndum. Það er núna verið að skoða það í ráðuneytinu hvaða embætti það verður. Við höfum náttúrlega nýfarið í gegnum miklar breytingar á sýslumannsembættunum. Ég held að sýslumenn séu mjög færir til að halda utan um þetta verkefni. Það verður næsta verkefni og í aðdraganda þess að frumvarpið verði væntanlega að lögum, hvort sem það verður núna eða aðeins seinna, að leysa úr því hvaða sýslumannsembætti er um að ræða. Ég vil líka láta það koma fram að verulegur hluti, eins og kannski gefur að skilja, verulegur meiri hluti nauðungarvistana er náttúrlega á höfuðborgarsvæðinu, og það mun reyna mest á félagsþjónustu höfuðborgarsvæðisins. Þar er til dæmis í gildi núna samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Landspítalans um verklagsreglur. Menn eru því að feta sig og þróa sig stöðugt áfram í þessum viðkvæma málaflokki.

Varðandi það hvernig við teljum að við getum náð þeim markmiðum okkar að fækka nauðungarvistunum þá er það nokkuð það verklag að gefa svigrúm til að geta metið ástand viðkomandi betur þegar ferlið byrjar. Þess vegna er lagt til að klukkustundunum verði fjölgað úr 48 í 72 til að hægt sé á þeim punkti að meta hvort taka þurfi þetta stóra skref. Við teljum að með því að herða og skerpa á þeim upphafsskrefum munum við ná þeim árangri að geta dregið úr og menn geti metið betur ástand viðkomandi áður en gengið er til slíkra örlagaríkra úrræða eins og hér er um að ræða.

Ég vil aðeins bregðast örstutt við hvað varðar Þjóðskrá eða landlækni. Við teljum að Þjóðskrá sé mjög hæf til að halda utan um þetta, ekki síst einmitt vegna þess upplýsingaöryggis sem þar er. Þar er líka hægt að tengja skrána við yfirlögráðendur, það skiptir líka máli í þessu. Það er mat ráðuneytisins að Þjóðskrá sé bær til að gera þetta og hún er vön því að fjalla um viðkvæmar upplýsingar. Að sjálfsögðu verður alltaf að líta til þeirra þátta þegar að því er litið. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði einnig hvort hægt verði að fá upplýsingar um það hver hefur farið fram á vistunina þá er það hægt á grundvelli stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Það er fyrir hendi.

Kannski aðeins varðandi það sem kom fram um þá breytingu gagnvart áfengissjúkum og fíkniefnasjúkum þá voru ekki mörg tilvik á grundvelli gildandi laga þar sem um þetta var að ræða, þannig að það var alveg efni til að gera breytingar þar. Ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður reifaði þegar kemur að þeim hópi manna. Það er nú svo að þeir sem eru veikir af því taginu, við viljum auðvitað sjá það fólk í meðferð og það er þangað sem við reynum að beina því fólki í samfélaginu þegar á þarf að halda.

Síðan er það alltaf þannig og það er nú kannski vandinn við lífið að þetta verður alltaf að vera mat samvirkandi þátta og þetta er algert neyðarúrræði. Það er mjög erfitt við lagasetningu. Það verða að vera leiðbeiningar fyrir hendi, en það er aldrei hægt að klappa það í stein nákvæmlega hvaða aðstæður eru og hvernig viðkomandi lítur út sem lendir í þessum aðstæðum. Löggjöfin þarf að búa til þennan ramma, hún þarf að verða ströng, hún þarf að vera mjög skýr, en það verður alltaf mat þeirra sem gerst þekkja hvort ástandið sé orðið með þeim hætti að grípa þurfi til þessa örlagaríka úrræðis.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa góðu umræðu. Ég veit að málið fær vandaða umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég ítreka það sem ég hef sagt að maður hefði auðvitað kosið að málið hefði komið fyrr fram á þessu þingi en ég held þó að það sé gott að það fái umfjöllun á þessu þingi núna.