144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[21:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála, lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti og lögum um dómstóla.

Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar sem hafa það að markmiði að einfalda og hraða meðferð dómsmála og auka afköst. Byggja margar þeirra á þeim tillögum sem hér eru lagðar til og tillögum frá starfshópi á vegum dómstólaráðs sem hafi það hlutverk að skoða hvar í réttarfarslögum eða innri reglum dómstólanna mætti koma við aukinni einföldun og skilvirkni við rekstur dómstóla þannig að það leiddi til hagræðingar. Með sífellt auknu álagi á dómstóla er nauðsynlegt að leita allra leiða til að sníða af óþarfa handtök við meðferð mála og auka þannig skilvirkni án þess að það komi niður á gæðum og öryggi málsmeðferðar.

Virðulegur forseti. Eins og áður sagði er meginefni frumvarpsins breytingar til að auka skilvirkni við meðferð dómsmála. Um er að ræða nokkuð margvíslegar breytingar og er ekki nauðsynlegt að fara yfir hverja einustu hér. Tillögurnar munu svo allar hljóta góða skoðun í allsherjar- og menntamálanefnd. Rétt er þó að stikla á stóru.

Lagt er til í 3. og 20. gr. frumvarpsins að dómstólaráð setji reglur um form og frágang dómsskjala, þar á meðal hámarkslengd stefnu og greinargerðar stefnda sem og ákæru og greinargerðar ákæra. Með þessum reglum er reynt að taka á þeirri þróun að lýsing málsatvika og málsástæða sé í óþarflega löngu máli og í raun í andstöðu við fyrirmæli réttarfarslaga um gagnorða lýsingu þessara atriða sem og regluna um munnlegan málflutning.

Þá eru lagðar til breytingar á meðferð kærumála til Hæstaréttar sem munu létta af héraðsdómstólum umtalsverðum kostnaði og fyrirhöfn. Þannig er lagt til að sá sem kærir úrskurð eða aðra dómsathöfn skuli sjálfur senda Hæstarétti þau gögn málsins sem hann telur nauðsynleg og afhenda gagnaðila eintak gagnanna, samanber 13. gr. frumvarpsins. Í dag er þetta verkefni á hendi héraðsdóms.

Þá eru lagðar til breytingar er varða matsgerðir, samanber 5. og 6. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að matsmaður þurfi ekki í öllum tilvikum að semja matsgerð.

Lögð er til breyting á ákvæðum laga um meðferð sakamála og rýmkuð heimild til að ljúka málum þar sem hinn ákærði mætir ekki fyrir dóm, samanber 24. gr. frumvarpsins. Með þessum hætti mætti afgreiða fjölda mála, svo sem ölvunarakstursbrot, skjótar en nú er. Slíkt ætti ekki að bitna á réttaröryggi sakbornings þar sem skilyrði er að honum hafi verið birt ákæra og fyrirkall um að mæta fyrir dóm auk þess sem möguleiki er á endurupptöku máls sem afgreitt er með þessum hætti.

Breytingin á aðfararlögunum, samanber 31. gr. frumvarpsins, er einnig til að auka á skilvirkni mála en þar er lagt til að dómari geti afgreitt aðfararbeiðni með ákvörðun ef hún er tekin til greina að öllu leyti, sem er einfaldari leið en að kveða upp rökstuddan úrskurð.

Þá eru lagðar til aðrar breytingar sem hafa ekki að meginmarkmiði að auka skilvirkni við meðferð mála. Lagðar eru til breytingar er varða skýrslutöku af börnum, samanber 18. gr. frumvarpsins. Lagt er til að meginreglan verði sú að skýrsla af barni yngra en 15 ára verði að meginstefnu til tekin í sérútbúnu húsnæði á öðrum stað en í dómhúsi. Einungis verði unnt að gera á þessu undantekningu ef hagsmunir barnsins krefjast þess, svo sem að þess sé ekki kostur að koma við skýrslutöku á þennan hátt nema með verulegu óhagræði fyrir barnið.

Lagðar eru til breytingar er varða birtingu dóma og að sérstaklega verði kveðið á um að birta skuli héraðsdóma, samanber 34. gr. frumvarpsins, en nú er slíkt ákvæði eingöngu að finna í dómum Hæstaréttar. Dómstólaráði er jafnframt falið að setja nánari reglur um útgáfu dóma og brottnám lýsinga úr þeim.

Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um meðferð sakamála er varða endurupptöku mála þegar hinn dómfelldi er látinn, samanber 29. gr. frumvarpsins. Hér er lagt til að norskri fyrirmynd að ákveðnir nánir ættingjar geti óskað endurupptöku sakamáls að uppfylltum tilteknum skilyrðum ef sérstaklega stendur á. Nýtur þá sá sem fer fram á endurupptöku máls sömu réttarstöðu og dómfelldi.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp var samið í samráði við dómstólaráð, Lögmannafélag Íslands, Dómarafélag Íslands og Hæstarétt. Eins og áður sagði er megintilgangur þess að einfalda og hraða meðferð dómsmála en jafnframt voru lagðar til breytingar sem ekki byggja eingöngu á því markmiði. Ljóst er að með auknu álagi á dómstóla verður að leita leiða til að auka skilvirkni við meðferð mála, eins og ég gat um. Er tilraun gerð til þess með þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.