144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[21:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú með hálfum huga sem maður vogar sér inn í umræður um þetta mál þegar maður sér hverjir hafa komið að samningu frumvarpsins, réttarfarsnefnd, lögmannafélag og dómarafélag, en engu að síður verð ég að staldra aðeins við ákvæði um birtingu dóma og þá heimild sem ég skil að sé ný, að á héraðsdómsstiginu geti dómari látið nægja að kveða upp munnlegan úrskurð og færa úrskurðarorð í þingbók þannig að í stað skriflegs úrskurðar eða dóms geti komið einhvers konar færsla í bók og munnlegur rökstuðningur og síðan bíði menn og sjái til hvort málinu verði áfrýjað og ef því verður áfrýjað þá er skrifuð greinargerð. Nú skil ég að þetta kann að verða til einföldunar og heilmikið af málum lýkur þar með ef þeim verður ekki áfrýjað og endanleg niðurstaða er fengin. Það þarf þá ekki að flækja málin með einhverjum ritgerðum. Þetta er samt þannig að þá er treyst á munnlega geymd að einhverju leyti eða þangað til viku síðar eða hvenær sem það er gert. Þetta kemur sömuleiðis fram í 13. gr. frumvarpsins þar sem segir að ef máli hefur verið áfrýjað og kæra send til Hæstaréttar skuli dómari, hafi hann ekki samið skriflegan úrskurð, gera það innan viku og afhenda þeim sem kærir.

Ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins betur yfir rökin. Hversu mikið telja menn sig vinna með þessu? Er þetta umtalsverður vinnusparnaður sem er þess virði eða réttlætir að fara í þessa átt? Það virðist að sumu leyti vera losaralegri frágangur á málinu á (Forseti hringir.) héraðsdómsstiginu en verið hefur fram að þessu.