144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[21:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið fullvissuð um það að með því að leggja til þessa breytingu sé í engu verið að stofna réttaröryggi í hættu. Það hefur verið útgangspunktur í allri þeirri vinnu sem hefur lotið að því að fara yfir þessa löggjöf. Eins og hv. þingmaður nefndi fengum við þá bestu sem völ er á til þess að fara yfir það. Það er mikilvægt í þessu að ekki yrði hægt að beita ákvæðinu ef úrskurður fæli í sér lokaniðurstöðu máls, svo sem ef máli væri vísað frá dómi. Það skiptir verulegu máli þegar lagt er mat á hvort þessi aðferð sé heppileg að ekki er um það að ræða.

Að öðru leyti verð ég að segja að ég óttast ekki að á þessu verði einhver losarabragur. Ég held að menn séu hreinlega að reyna að sníða agnúa af og einfalda hlutina í vinnu án þess að vega með nokkrum hætti að réttaröryggi.