144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[21:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi endurupptökuna þá var í því efni af hálfu ráðuneytisins leitað til réttarfarsnefndar sem taldi ástæðu til að vera með almennt ákvæði af þessu tagi.

Varðandi tiltekin mál sem hv. þingmaður spyr að þá eru þau mál komin í formlegt ferli og búið að færa það er varðar tvo aðila af hinum látnu undir saksóknara sem er Davíð Þór Björgvinsson. Síðan er þriðja málið væntanlegt í ráðuneytið. Ég geri ráð fyrir því að þetta muni allt fara í sama farveg.

Ég held að það sé skynsamlegt að vera með almennt ákvæði af þessu tagi og held að ég hafi komið þeim sjónarmiðum mínum á framfæri hér fyrr í vetur. Þá var málið ekki komið á það stig að það væri hægt að afgreiða það eða leggja það fram á þingi; það voru enn á því lausir endar. Ég held að það horfi til bóta að vera með almennt ákvæði af þessu tagi þegar dómfelldu eru látnir.