144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

siglingalög.

672. mál
[21:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

Frumvarpið felur fyrst og fremst í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 392/2009 um bótaábyrgð farsala vegna slysa við farþegaflutninga á sjó, en einnig er lagt til að bætt verði við viðurlagaákvæði vegna innleiðingar á tilskipun 2009/20/EB um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum. Sú tilskipun var að mestu innleidd hér á landi með lögum nr. 46/2012, um breytingu á siglingalögum, en þá misfórst að taka upp viðurlagaákvæði vegna tryggingaskyldu útgerðarmanna á að tryggja skip sín og er því lagt til að úr því verði bætt með þessu frumvarpi.

Reglugerð 392/2009 fjallar um flutning á farþegum og farangri þeirra á sjó. Gildissvið hennar afmarkast við skip í millilandasiglingum og skip á hafsvæði í flokki A og B. Skipum í innanlandssiglingum er skipt í fjóra flokka eftir því á hvaða hafsvæðum þau sigla, þ.e. hafsvæði A, B, C og D. Til skýringa má geta að ríkari kröfur eru gerðar til skipa fyrir siglingar á hafsvæði A á meðan vægustu kröfurnar eru gerðar til skipa fyrir siglingar á hafsvæði D. Stærsti hluti þeirra skipa sem sigla úti fyrir ströndum Íslands starfa á hafsvæðum C og D og falla því utan gildissviðs hennar. Af þeim skipum sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar má nefna Herjólf og Sæfara.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Samgöngustofu, Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök verslunar og þjónustu. Þá var frumvarpið kynnt á vef ráðuneytisins og var tveggja vikna frestur veittur til athugasemda. Í frumvarpinu hefur verið tekið tillit til athugasemda þessara aðila, en þær voru á þá leið að ekki yrði gengið lengra en nauðsynlegt væri við innleiðingu EES-gerðanna.

Þá er lagt til í frumvarpinu að nýta heimildir reglugerðarinnar sem leyfir aðildarríkjum að fresta framkvæmd hennar. Munu breytingarnar því taka gildi gagnvart skipum í A-flokki frá 30. desember 2016 og gagnvart skipum í B-flokki frá 30. desember 2018.

Helstu breytingarnar sem verða með innleiðingu reglugerðarinnar eru eftirfarandi:

1. Farsali mun bera hlutlæga ábyrgð á tjóni farþega sem stafar af atviki við sjóflutninga upp að 250.000 SDR og er hann skyldugur að hafa tryggingar fyrir þeirri fjárhæð. Samkvæmt því mun ábyrgðin til skipsstranda, áreksturs ef skip sekkur eða hvolfir, sprenginga eða ef eldur verður um borð, eða ágalli sé á skipinu.

2. Farsali mun bera ábyrgð á tjóni af hjálpartækjum einstaklinga með skerta hreyfigetu.

3. Farsala sem ábyrgur er fyrir tjóni vegna atviks við sjóflutninga ber að greiða tjónþola fyrir fram bætur til að standa undir brýnustu fjárþörf.

5. Farsali er skyldaður til að upplýsa farþega um réttindi sín samkvæmt reglugerðinni.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og vísa að öðru leyti til athugasemda sem fylgja frumvarpinu. Verði frumvarpið að lögum hefur það ekki mikil áhrif hér á landi og takmarkast einkum við útgerðir fyrrgreindra skipa. Þá er ekki gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins kalli á eftirlit umfram það sem nú fer fram hjá Samgöngustofu.

Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar.