144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

Samgöngustofa og loftferðir.

674. mál
[21:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, og lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Frumvarpið felur í sér annars vegar breytingar sem heimila ráðherra að innleiða reglugerðir er varða Flugöryggisstofnun Evrópu og Siglingaöryggisstofnun Evrópu og teknar hafa verið upp í EES-samninginn og hins vegar að tekin verði upp að nýju gjaldtökuákvæði um útgáfu lofthæfisskírteina til útflutnings og um fyrstu útgáfu lofthæfisskírteina vegna loftfara sem ekki eru vélknúin.

Þá er jafnframt að finna í frumvarpinu heimild til handa ráðherra til að mæla fyrir um greiðslu kostnaðar vegna starfa samræmingarstjóra á flugvöllum með samræmdan afgreiðslutíma.

Þær gjaldtökuheimildir sem er að finna í frumvarpinu var áður að finna í lögum um Flugmálastjórn Íslands sem felld voru úr gildi með gildistöku laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu.

Samgöngustofa sendi ráðuneytinu erindi þar sem bent var á að heimildin hefði verið felld út og óskað eftir því að ráðuneytið beitti sér fyrir að heimildinni yrði komið fyrir að nýju í lögum. Umræddar gjaldtökur eru ekki reglubundnar og eiga sér eingöngu stað að beiðni gjaldanda, annaðhvort við nýskráningu loftfars sem ekki er vélknúið eða útfellingu loftfars svo sem vegna sölu eða við skil að loknum leigutíma.

Ákvæði er snúa að Flugöryggisstofnun Evrópu og Siglingaöryggisstofnunar Evrópu fela í sér að sambærilegar heimildir séu til staðar vegna þessara stofnana sem Ísland er aðili að gegnum EES-samninginn. Þannig ber ráðherra nú að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins er varðar stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu. Á grundvelli stofngerða stofnananna er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins falið að setja reglugerðir um ákveðin verkefni stofnananna og þarf að innleiða þær hér á landi.

Ákvæði frumvarpsins sem snertir heimild ráðherra til að mæla fyrir um skiptingu kostnaðar vegna verkefna samræmingarstjóra er ætlað að renna styrkari stoðum undir núgildandi framkvæmd, en gerðar voru breytingar á skipan samræmingarstjóra á Keflavíkurflugvelli eftir að athugasemdir bárust frá Eftirlitsstofnun EFTA um að sjálfstæði hans væri ekki nægjanlega tryggt. Ákvæðið felur því ekki í sér neinar breytingar frá núgildandi fyrirkomulagi.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Samgöngustofu að því er varðar gjaldtökuheimildir. Þá var frumvarpið kynnt á vef ráðuneytisins og tveggja vikna frestur var veittur til athugasemda. Engar athugasemdir voru gerðar við frumvarpið.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og vísa að öðru leyti til athugasemda þeirra sem fylgja frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.