144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

Samgöngustofa og loftferðir.

674. mál
[22:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt og við þekkjum það að gríðarlega mikið alþjóðlegt regluverk er hvað varðar loftferðir og slíka flutninga. Það eru engar reglugerðir um að ræða þarna sem varða stjórnskipulega fyrirvara. Það þyrfti ávallt að fara fram með allt öðrum hætti, að því er sérstaklega gætt fyrir fram. Og þegar þarf að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara eða fara þarf með reglurnar í gegnum breytingar á lögum þá er það að sjálfsögðu gert. Þessar reglur eru þess eðlis að óhætt er að fara með þær með þessum hætti, það hef ég verið fullvissuð um og skil alveg eindregið þannig að svo sé. Þær hafa nú þegar hlotið meðferð á viðeigandi stöðum.

En ég tel hins vegar, af því að umtalsverðar reglur berast okkur stöðugt frá hinu alþjóðlega umhverfi hvað varðar öryggi í flugi, að mikilvægt sé fyrir okkur að hafa gætur á því hvað við erum að innleiða á hverjum tíma og við reynum að vanda okkur alveg sérstaklega vel við það.