144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

Samgöngustofa og loftferðir.

674. mál
[22:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er reyndar almennt þeirrar skoðunar að fara eigi gætilega í reglugerðarheimildir og hafa þær ekki of opnar. Ég get að því leyti til tekið undir með hv. þingmanni að ástæða er til að fara sérstaklega varlega í því að veita of opnar reglugerðarheimildir. Ég held að þetta kalli hreinlega á það að nefndin skoði það rækilega í málsmeðferð sinni hvort þarna sé ekki passlega langt gengið eða hvort þurfi að gera bætur á þessu ákvæði. Ég treysti nefndinni fyllilega til að gera það og fara rækilega yfir það.

Ég held við ættum reyndar að hugleiða það líka þegar við erum að taka inn þetta mikla regluverk að utan, sem í þessu tilviki skipta öryggissjónarmiðin verulega miklu máli, að við séum ávallt að hugsa það að við séum að taka þetta á réttan hátt inn í okkar rétt og ekki heldur framselja vald, hvort sem er til framkvæmdarvalds eða annars, með einhverjum óvarlegum hætti. Það mundi maður alls ekki vilja sjá.