144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lyfjalög.

645. mál
[22:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra aldeilis ágæta yfirferð yfir þetta mál sem varðar lyfjagát. Eins og fram kom í ræðu hans er því ætlað að tryggja betur öryggi notenda lyfjanna. Ég velti fyrir mér í því samhengi að í velferðarnefnd höfum við verið að fjalla um frumvarp til breytingar á lyfjalögum sem varða auglýsingar á lyfjum og þar á að heimila auglýsingar í sjónvarpi. Þar er jafnframt verið að einfalda þær upplýsingar sem gefa þarf leyfi fyrir í auglýsingum, meðal annars þarf samkvæmt frumvarpinu ekki að veita sérstakar upplýsingar um aukaverkanir.

Því velti ég þeirri spurningu upp við ráðherra hvort það frumvarp kunni að stangast á við markmið þessara breytinga. Auðvitað er það ekki ráðherra að ákveða það eða að taka ákvarðanir fyrir velferðarnefnd, við getum gert það að eigin frumkvæði og ég ætla ekki að leggja þá ábyrgð á hans herðar, en telur hæstv ráðherra ekki að það sé tilefni til að gæta sérstaklega að þessu og kanna hvort eðlilegt sé að fella úr lögum skylduna til að auglýsa að minnsta kosti algengustu aukaverkanir?