144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lyfjalög.

645. mál
[22:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hugleiddi þetta örlítið við yfirferð þess frumvarps sem hér liggur fyrir til umræðu. Ég velti fyrir mér þeim reglum sem hér er verið að leiða í lög og en þótt ekki hafi verið lokið við að leiða þær í laga- og regluverk okkar tel ég að Lyfjastofnun og markaðurinn hafi unnið að mestu eftir þessu regluverki. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það ætti að gefa okkur frekari tækifæri til að gera ríkari kröfur til markaðsleyfishafa um eftirlit og upplýsingagjöf varðandi þá áhættuþætti eða mögulegar aukaverkanir sem hin ýmsu lyf kunna að valda. Ég tel því að þessi löggjöf eða þetta frumvarp, að því gefnu að það verði að lögum, ætti í rauninni að vinna frekar með því að styrkja utanumhald um eftirlit með lyfjum og notkun þeirra hér á landi. Þar af leiðandi ætti það að geta styrkt grunninn undir því eftirliti sem menn eru hugsandi yfir ef það frumvarp sem hv. þingmaður vísaði til verður að lögum.

Í því frumvarpi er fyrst og fremst verið að leiða inn jafnræði á milli auglýsingategunda. Verið er að heimila auglýsingar í sjónvarpi sem leyfðar eru í ljósvakamiðlum eða blaðaútgáfu. Það er fyrst og fremst verið að jafna samkeppnisstöðu og þá líka aðgengi neytenda að því að afla sér upplýsinga varðandi þau lyf sem heyra þar undir.