144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á árinu 2013 voru fleiri vegalausir innan eða utan eigin landamæra en nokkru sinni síðan í seinni heimsstyrjöld, en þá taldi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að ríflega 51,2 milljónir manna væru á flótta. Þeim hafði þá fjölgað um 6 milljónir frá árinu á undan og sá vandi er ekki í rénun. Hann er, má segja, allt í kringum okkur.

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna drukknuðu yfir 3.500 flóttamenn í Miðjarðarhafi á leið sinni frá Afríku til Evrópu árið 2014 og á árinu 2015 er óttast að nú þegar hafi látist um 1.700 manns, þar af 800 helgina 18.–19. apríl. Þetta fólk flýr hörmulegar aðstæður, stríðsátök, fátækt og við horfum á Evrópusambandið loka landamærum sínum, sem vissulega hefur orðið tilefni harðra deilna innan sambandsins sem hlýtur að vera okkur öllum áminning um að svona stefna gengur ekki.

Við Íslendingar getum gert ýmislegt. Við í þingflokki Vinstri grænna höfum þegar lagt fram tillögu um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að stórefla þátttöku Íslands í björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi með endurgjaldslausu útláni á varðskipi til björgunaraðgerða og með áætlun um móttöku flóttamanna á svæðinu.

Við getum gert meira. Samkvæmt Eurostat fékkst jákvætt svar aðeins við 30 af 110 umsóknum um hæli á Íslandi árið 2014. Það eru 27% sem fá hér hæli. Til samanburðar má nefna Svíþjóð, sem er auðvitað mjög framarlega í flokki í þessum efnum. Þar fengu 30.650 af 39.905 hælisleitendum jákvætt svar. Það eru 77%.

Ef við fylgdum fordæmi Svía tækjum við á móti meira en 1 þús. flóttamönnum á Íslandi. Raunveruleikinn er sá að aðeins 30 fengu hæli eða viðbótarvernd á síðasta ári. Við þurfum að taka okkur á ef við ætlum að halda í við Svía því að það þarf stórátak í þessum málum ef við ætlum að standa við það að við séum öll jöfn, sama hvar í heiminum við erum fædd. Börnin fæðast alveg jafn saklaus (Forseti hringir.) í Sýrlandi og á Íslandi og myndin af litlu stúlkunni sem drukknaði í Miðjarðarhafi á dögunum ætti að vera okkur öllum áminning um að við getum gert miklu betur í þessum efnum.