144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar skora á forseta Alþingis og hv. forsætisnefnd að ljúka svo fljótt sem verða má setningu siðareglna fyrir alþingismenn. Það er til vansa fyrir þingið að við skulum ekki hafa lokið því verki. Við sem setjum öðrum lög og reglur þurfum auðvitað að ljúka því að setja okkur sjálfum reglur í þessu efni. Það er sömuleiðis óviðunandi að ekki sé ljóst hvaða reglur gilda um siðareglur fyrir þá alþingismenn sem eru ráðherrar því að það hafa verið um það misvísandi yfirlýsingar af hálfu hæstv. forsætisráðherra, leyfi ég mér að segja, þar sem hann hefur annars vegar lýst því yfir að í gildi séu þær siðareglur sem settar voru fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar árið 2011 og hins vegar hefur hann í öðru tilfelli lýst því yfir að þær reglur séu til viðmiðunar. Það er auðvitað ófullnægjandi að ekki sé alveg skýrt hvort reglurnar séu í gildi eða hvort þær séu til einhvers konar viðmiðunar. Ég tel að í ljósi þeirrar stöðu sem þingið hefur og stjórnmálin hvað varðar traust og trúnað almennings í landinu eigi það að vera forgangsverkefni forustunnar, bæði hér í þinginu og í ríkisstjórninni, að reka af sér þetta slyðruorð og ljúka setningu siðareglna fyrir alþingismenn og hafa það alveg skýrt að siðareglur gildi fyrir ríkisstjórn Íslands eins og aðra í stjórnsýslunni.