144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ráðherrar og þingmenn eru reglulega minntir á ábyrgð sína. Umræðan er oft og tíðum ósanngjörn og á lágu plani. Tvær stórar framkvæmdir eru í uppnámi vegna vandamála. Vaðlaheiðargöng eru skipgeng vegna vatnsaga en ekkert skip hefur komist í Landeyjahöfn í 160 daga, þ.e. í hálft ár. (Gripið fram í.) Framkvæmdir sem kosta á annan tug milljarða eru í uppnámi og viðbrögð samfélagsins eru að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar. Ábyrgð þeirra er mikil og ég dreg ekki úr því. En hver er ábyrgur fyrir þeim stofnunum sem sjá um rannsóknir og framkvæmdir verkefnanna? Í stofnunum ríkisins liggur þekkingin og þar er framkvæmdin, þar er samið við rannsóknaraðila og verktaka. Í fjölmiðlum má heyra að skort hafi á rannsóknir vegna Vaðlaheiðarganga. Það má vel vera og ég velti fyrir mér hver beri ábyrgð á því, hafi það verið satt. Landeyjahöfn hefur verið lokuð í 160 daga, sex mánuði, með ómældum óþægindum fyrir Eyjamenn og það hefur stórskaðað ferðaþjónustuna og atvinnulífið í Eyjum.

Virðulegi forseti. Ég hef beint því til innanríkisráðherra að þegar verði gerð á því óháð úttekt hvernig forsendur fyrir Landeyjahöfn hafa staðist, hvort líkur séu á að Landeyjahöfn standist væntingar sem til hafnarinnar voru gerðar. Standist þær ekki verði gerðar tillögur um lagfæringar á Landeyjahöfn. Skorið verði úr því hvort höfnin verði heilsárshöfn, jafnvel með tilkomu grunnristari ferju, og niðurstaðan liggi fyrir sem fyrst. Það er mikilvægt að varpa ljósi á framtíð Landeyjahafnar og að allt verði gert til að tryggja og bæta samgöngur við Eyjar og að ábyrgð allra á málinu verði ljós.