144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni varðandi það hvernig við berum ábyrgð á því að húsnæðisverði, bæði leigu- og söluhúsnæðis, er haldið uppi víða. Og þetta á við um landið allt. Í mínum heimabæ stendur stór hluti húsnæðis tómur, er í eigu Íbúðalánasjóðs eða einstakra banka og fæst hvorki leigður né keyptur á því markaðsverði sem þar er.

Ég hef áður lýst því úr þessum ræðustól að ég hef miklar áhyggjur af þróun mála varðandi Reykjavíkurflugvöll. Í dag vil ég því sérstaklega fagna bréfi hæstv. innanríkisráðherra Ólafar Nordal til Reykjavíkurborgar frá 17. apríl sl. Þetta bréf er mikilvægt fyrir framvindu mála og í því koma fram mikilvægar upplýsingar um að Reykjavíkurborg fer hvorki eftir gildandi skipulagsreglum né virðir þá stjórnsýslumeðferð sem nú er í gangi. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt gildandi skipulagsreglum, sem samþykktar voru af samgönguráðherra og birtar í Lögbirtingablaðinu 7. ágúst 2009, eru hindrunarfletir á aðflugslínum að flugbrautum vallarins, þar með talin flugbraut 6.2.4.

Sú uppbygging sem fyrirhuguð er á svæði Valsmanna er innan þess svæðis sem skipulagsreglur Reykjavíkur ná til og því óheimilt að reisa mannvirki sem ná upp fyrir fleti eins og segir til um í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 60/1998, um loftferðir. Það er því ljóst að nú hefur Reykjavíkurborg gefið út framkvæmdaleyfi til að hefja framkvæmdir við völlinn sem ekki geta haldið áfram nema fyrst verði farið í breytingar á skipulagsreglum borgarinnar. Meðan niðurstaða úr vinnu Samgöngustofu og þeirrar nefndar sem fjallar um könnun flugvallakosta undir forustu Rögnu Árnadóttur liggur ekki fyrir er enginn grundvöllur til útgáfu framkvæmdaleyfis.