144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

703. mál
[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Tilefni lagasetningarinnar er fjórþætt. Í fyrsta lagi er starfstími óbyggðanefndar framlengdur til loka þessa árs. Nauðsynlegt er að framlengja starfstíma nefndarinnar umfram það sem núgildandi lög gera ráð fyrir. Gert var ráð fyrir að óbyggðanefnd lyki störfum árið 2014 en nú áætlar nefndin að störfum hennar muni ekki ljúka fyrr en árið 2018. Það er því ekki um annað ræða en að framlengja starfstíma nefndarinnar. Auk þess er gert ráð fyrir að fram fari frekari endurskoðun laganna síðar á þessu ári og í því ljósi er hér lagt til að starfstími nefndarinnar verði framlengdur til loka þessa árs.

Landssamtök landeigenda á Íslandi hafa leitað eftir því við forsætisráðuneytið að heimildir til endurupptöku þjóðlendumála verði rýmri en almennt tíðkast. Samtökin hafa í þessu sambandi meðal annars vísað til þess að í þjóðlendumálum sé oft fengist við mjög gömul gögn af margvíslegu tagi og þau geti víða leynst, eins og hefur komið á daginn. Það er því nánast óhjákvæmilegt að eftir að úrskurðir eða dómar hafa verið kveðnir upp komi í leitirnar mikilvæg gögn, jafnvel löngu síðar. Forsætisráðuneytið hefur þessa málaleitan nú til athugunar, m.a. í samvinnu við óbyggðanefnd að því er varðar stjórnsýslustig mála og endurupptökunefnd varðandi niðurstöðu dómstóla sem og ríkislögmann. Þeirri athugun er ekki lokið en ljóst er þó að þegar óbyggðanefnd hefur lokið verkefnum sínum og verið lögð niður í kjölfarið, eins og lög gera ráð fyrir, gætu komið fram ný gögn í málum sem ekki hefur verið skotið til dómstóla. Að óbreyttu væri enginn farvegur fyrir hendi varðandi slík mál og því er nauðsynlegt að tryggja að komið verði á slíkum farvegi.

Ætlunin er einnig að endurskoða ákvæði laganna um hæfi nefndarmanna með það að markmiði að nefndarmenn geti starfað áfram eftir að 70 ára aldri er náð, enda er málaflokkurinn einkar sérhæfður og mikilvægt að reynsla og þekking einstakra nefndarmanna nýtist sem lengst.

Þá má geta þess að málefni og lagaumgjörð þjóðlendna hefur verið mjög í deiglunni undanfarið og svo mun eflaust verða áfram á næstu missirum með aukinni ásókn í að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendna. Þetta krefst þess að hugað sé að ýmsum álitaefnum eins og hvort nauðsynlegt sé að gera kröfur um leyfi fyrir til dæmis skipulagðar ferðir með ferðamenn inn á þjóðlendur sem og fyrir umfangsmikil kvikmyndaverkefni.

Í öðru lagi er tilefni þess að frumvarp þetta er lagt fram að nokkurrar óvissu gætir um hvernig skuli standa að þinglýsingu eignarheimilda þegar um þjóðlendur er að ræða. Því er lagt til að valdheimildir til að þinglýsa eignarheimildum verði færðar á hendur ráðuneytisins. Þar sem ríkið er aðili að málum sem borin eru undir óbyggðanefnd og fer með eigendavald innan þjóðlendna sem landeigandi verður að teljast rökrétt að það falli í skaut ráðuneytis að halda til haga og þinglýsa þeim landsréttindum sem ríkinu eru veitt í úrskurðum óbyggðanefndar eða dómum ef svo ber undir.

Í þriðja lagi hefur við úrlausn verkefna sem tengjast umsýslu með þjóðlendur vaknað sú spurning hvort nýting ýmissa annarra réttinda eigi betur heima hjá ríkinu en sveitarfélögum. Annars vegar er þar um að ræða nýtingu sem tengist vindorku og hins vegar ýmislegt sem varðar náttúrumyndanir. Nýting vindorku er mjög til umfjöllunar hér á landi þessa dagana. Í lögunum er orkunýting háð leyfi ráðherra en ekki viðkomandi sveitarstjórnar. Telja verður að nýjar og breyttar áherslur í orkunýtingu hér á landi kalli á að vindorku sé sérstaklega getið sem nýtingar sem falli undir leyfisveitingarhlutverk ráðherra með annarri orkunýtingu sem talin er upp í lögunum og felld undir leyfisveitingarhlutverk ráðherra nú þegar.

Fjölgun ferðamanna í landinu og þar með ásókn í að skoða ýmsar náttúruperlur hefur vakið spurningar um nauðsyn þess að einstakar náttúrumyndanir sem víða eru innan þjóðlendna séu á forræði ríkisins sem fer með eignarheimild sem landeigandi. Miklir hagsmunir eru tengdir nýtingu slíkra náttúrumyndana og mikilvægt að vel takist til. Því er talið fara vel á því að leyfisveiting vegna þeirra sé á hendi ríkisins, m.a. til að gæta samræmis um landið allt hvað varðar nýtingarheimildir, gjaldtöku fyrir slíka nýtingu og takmarkanir á nýtingu sem kann að þurfa til að hlífa slíkum svæðum að meira eða minna leyti, enda má leiða að því líkur að nýting náttúrumyndana á þennan hátt sé eðlisskyld þeim réttindum sem upp eru talin í 2. mgr. 3. gr. laganna og felld eru undir leyfisveitingu forsætisráðuneytisins. Felur slík lagabreyting í sér möguleika til að samræma með hvaða hætti nýta eigi slíkar náttúrumyndanir þjóðinni allri til heilla.

Loks hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að ástæða er til að rýmka heimildir sveitarfélaga til að nýta tekjur sem til falla vegna leyfa til nýtingar landsréttinda innan þjóðlendna og takmarka það ekki við þá tilteknu þjóðlendu þar sem tekjumyndunin verður. Mikið ójafnvægi í uppbyggingu innan þjóðlendna getur skapast verði ákvæði laganna óbreytt. Þannig gætu miklar tekjur myndast innan tiltekinnar þjóðlendu þar sem viðkomandi sveitarfélag teldi ekki þörf á mikilli uppbyggingu á meðan í annarri þjóðlendu innan sama sveitarfélags væri brýn þörf fyrir aðstöðu sem kallaði á fjárfreka uppbyggingu, svo dæmi sé tekið.

Þessu tengt má geta þess að árið 2012 innti Landsvirkjun af hendi greiðslu í ríkissjóð sem nam tæplega 1 milljarði kr. fyrir afnot af vatnsréttindum í þjóðlendu, auk Brattagerðis vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þessu fjármagni hefur ekki verið ráðstafað, en lögin um þjóðlendur gera ráð fyrir að slíkum tekjum sé varið til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna. Tímabært er að huga að ráðstöfun, a.m.k. hluta þessa fjármagns, nú þegar mikilvægt er að hefjast handa við uppbyggingu innviða helstu ferðamannastaða, en þeir eru margir hverjir innan þjóðlendna.

Virðulegur forseti. Meginefni frumvarpsins mælir fyrir um að við upptalningu á leyfisskyldri nýtingu landsréttinda sem fellur undir valdsvið ráðherra bætist náttúrumyndanir. Er þar tekið mið af ákvæði 53. gr. náttúruverndarlaga, en þar er getið náttúrumyndana sem ætlunin er að fella undir leyfisveitingarhlutverk ráðuneytisins samkvæmt frumvarpi þessu. Þar er meðal annars um að ræða fossa, eldstöðvar, hella og dranga auk fundarstaða steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og bergforma. Þá er lagt til að vindorka sé felld undir leyfisveitingarhlutverk ráðherra auk vatns- og jarðhitaréttinda, náma og jarðefna, enda er nauðsynlegt í ljósi breyttra áherslna í orkunýtingu að geta hennar í upptalningu 2. mgr. 3. gr. eins og ég gat um áðan.

Ekki þykir ástæða til að takmarka ráðstöfun tekna sveitarfélaga af leyfum við þá þjóðlendu sem leyfi tekur til svo sem mælt er fyrir um í núgildandi lögum. Í því sambandi hafa verið færð rök fyrir því að fjármunir nýtist betur ef sveitarstjórn er mögulegt að skipuleggja uppbyggingu heildstætt í þeim þjóðlendum sem eru í sveitarfélaginu. Ég nefndi dæmi um þetta áðan hvað það getur verið bagalegt fyrir sveitarfélag ef tekjur falla til á einum stað innan sveitarfélagsins en sveitarfélagið getur ekki ráðstafað þeim þar sem er brýn þörf á uppbyggingu. Það skapar einnig grundvöll til að forgangsraða verkefnum.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 8. gr. verði breytt á þann hátt að starfstími nefndarinnar verði framlengdur til loka árs 2015 og er ætlunin að endurskoða lögin fyrir lok þess tíma.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra hafi frumkvæði að því að þinglýsa eignarheimildum sem varða þjóðlendur og þannig séu öll verkefni sem lúta að þinglýsingu réttinda falin þeim ráðherra sem fer með málefni þjóðlendna.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.