144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

703. mál
[15:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég var aðeins að skoða þetta mál til undirbúnings þessum fundi og ákvað að kveðja mér hljóðs af því að það slær mann þegar maður skoðar heimasíðu óbyggðanefndar, þar sem er yfirlitskort yfir þær þjóðlendur sem er þegar búið að úrskurða um, að þær þekja verulegt svæði landsins og verulegan hluta miðhálendisins. Í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði áðan um þær breytingar sem hafa orðið á atvinnulífi okkar á undanförnum missirum og árum, þar sem er stóraukinn ágangur ferðamanna til þess að skoða náttúruperlur og náttúruminjar, þá slær það mann að sjá hvar þjóðlendurnar eru staðsettar. Það minnir mann á kröfurnar sem nú eru uppi í samfélaginu um þjóðgarð á miðhálendinu, að við tökum það skref að stofna þjóðgarð á miðhálendinu. Við tókum það skref á sínum tíma að setja niður Vatnajökulsþjóðgarð.

Ég hef verið með tillögu til þingsályktunar í talsverðan tíma í þinginu, og á undan mér fleiri þingmenn úr minni hreyfingu, um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Haldinn var mikill baráttufundur á dögunum um að friða miðhálendið þar sem þjóðlendurnar liggja. Þangað komu ýmsir aðilar og var gaman að sjá að það voru aðilar þvert á hið pólitíska litróf, hið hefðbundna pólitíska liftróf sem við erum kannski öll í þessum sal einhvers staðar á, sem lýstu stuðningi við kröfuna um friðun miðhálendisins. Ég kem hér upp af því að hæstv. forsætisráðherra nefndi þetta með ferðamennina og breytta nýtingu á landi. Ég held að við þurfum að fara að tileinka okkur breytt hugarfar þegar við ræðum hvernig við nýtum auðlindir þessa lands.

Til að mynda í allri umræðunni um auðlindagjald, þegar við ræðum hvaða gjald eigi að taka af þeim sem fá tækifæri til þess að nýta auðlindirnar, gleyma menn stundum að nefna að hin ósnortna náttúra, víðernin sem við eigum á miðhálendinu eru auðvitað gríðarleg auðlind. 80% af ferðamönnum sem koma hingað koma út af náttúrunni, af því að þeir vilja upplifa náttúruna, hluti af þeim kemur til að upplifa ósnortna náttúru, stærstu víðerni Evrópu, hvergi annars staðar er hægt að skynja þá einstöku tilfinningu sem felst í því að vera maður í slíku umhverfi. Maður sér þegar maður flýgur yfir Evrópu og yfir misjafna ferhyrninga af landi sem allt er skipulagt og manngert hversu gríðarleg auðæfi við eigum. En það er mikilvægt að við mörkum okkur stefnu til framtíðar í þeim efnum, hvernig nákvæmlega ætlum við að stýra aðgengi að miðhálendinu til að tryggja að það verði ekki fyrri skemmdum, hvernig nákvæmlega á að standa að hverfaþjónustu í kringum miðhálendið? Er það ekki best gert, og ég veit að það eru ekki allir sammála um það í þessum sal en við þurfum að fá þá umræðu fram, með því að varðveita víðernin, fara ekki að byggja upp vegi, fara ekki að leggja rafmagnslínur eða slíkt, varðveita hin ósnortnu víðerni og tryggja þau, ekki aðeins vegna ferðaþjónustu eða ferðamennsku, sem eru að sjálfsögðu mikilvæg efnahagsleg rök, heldur líka í sjálfu sér?

Það má segja að rökin hrannist upp, að mínu viti, til þess að við tökum þetta skref og stígum fram í að friða miðhálendið. Ég held að það væri gríðarlega jákvætt skref til allrar framtíðar, skref sem yrði munað eftir af komandi kynslóðum sem skref sem sýndi framsýni. Ég held að við getum öll verið sammála um það hér að við mundum ekki vilja vera án þeirra þjóðgarða sem við eigum í dag. Lítum á miðhálendið sem auðlind og þar hafa stjórnvöld og Alþingi einstakt tækifæri í gegnum þá staðreynd að þarna liggja þjóðlendurnar.

Ég ætlaði ekki að halda langa ræðu heldur aðeins að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Ég held að við höldum þarna á einstöku tækifæri. Við vitum hins vegar að það eru margir sem vilja fara í annars konar uppbyggingu á þessum svæðum. Það eru hugmyndir uppi um virkjanir, eins og ég sagði áðan, vegi, línulagnir. Þess vegna er þeim mun mikilvægara að við tökum þessa umræðu og vegum og metum þau sjónarmið sem eru uppi, ekki aðeins þau efnahagslegu heldur líka hin umhverfislegu og samfélagslegu.

Það er ein spurning sem mig langar að beina til hæstv. forsætisráðherra, sem hann getur kannski svarað á eftir við lok þessarar umræðu. Ég tek eftir því að í 1. gr. laganna er talað um náttúrumyndanir og í greinargerðinni er vitnað til náttúruverndarlaga frá 1999. Nú vitum við að hér voru samþykkt lög en gildistöku þeirra frestað árið 2013. Þau lög eru í vinnslu, í endurskoðun, þannig að væntanlega verða þau að lögum á þessu þingi, ný náttúruverndarlög. Þau hafa verið í vinnslu milli hæstv. umhverfisráðherra og hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að skoða þetta frumvarp út frá því að væntanlega hafa ný náttúruverndarlög tekið gildi þegar það verður að lögum, verði það að lögum í vor, því að eins og ég kann þetta þá er fresturinn fram á vor eða sumar til þess að ljúka vinnu við ný náttúruverndarlög og þá þarf væntanlega að endurskoða þetta orðalag. Þetta er fyrst og fremst lagatæknilegt atriði en mér fannst samt rétt að vekja athygli á því í ljósi þess að þarna er verið að vitna í lögin frá 1999 en væntanlega taka ný lög gildi fyrir 1. júlí 2015, kannski er gerð grein fyrir þessu einhvers staðar í greinargerð en ég gat ekki fundið út úr því. Mér finnst mikilvægt að þarna sé samræmi á milli þess sem við ræðum.

Ég ítreka áskorun mína um að þingmenn taki höndum saman um að ræða möguleikann á friðun miðhálendisins og þjóðgarðs á miðhálendinu.