144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

636. mál
[16:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að reyna að glöggva mig á þessu frumvarpi og þó svo það sé kannski ekki voðalega stórt eða láti mikið yfir sér þá á ég svolítið erfitt með að sjá hvernig það muni raungerast ef þau lög sem hér er mælt fyrir mundu taka gildi. Hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að stefna ríkisins sé að nota allar þær heimildir sem við höfum til fyrirframsamþykkis og hann sagði jafnframt að það væri fátítt að einstaklingar fari á milli landa til að leita sér að heilbrigðisþjónustu og telur að svo verði áfram.

Það sem ég er að reyna að láta raungerast fyrir mér er hvernig þetta muni virka, ef við leiðum þetta nú í lög, í praxís fyrir notandann. Ég næ ekki alveg að sjá það fyrir mér þegar ég les frumvarpið. Hvað þýðir þetta í raun? Get ég til dæmis bankað upp á í Danmörku og fengið þar heilbrigðisþjónustu og komið síðan hingað heim og sótt um endurgreiðslu til ríkisins? Ég sé það ekki alveg fyrir mér hvenær ég þarf fyrirframsamþykkið og hvaða afleiðingar það hefur fyrir einstaklinginn sem sækir sér heilbrigðisþjónustu ef hann er ekki búinn að fá þetta fyrirframsamþykki. Gæti hæstv. ráðherra útskýrt aðeins nánar hvernig það hreinlega virkar gagnvart hinum almenna notanda heilbrigðisþjónustunnar?