144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

636. mál
[16:13]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna.

Ég verð að taka undir orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur að þrátt fyrir að ég sé búin að liggja aðeins yfir frumvarpinu þá á ég svolítið erfitt með að átta mig nákvæmlega á því og finnst þar vera svolítið flókinn texti til að ná utan um. En það sem ég sé í fljótu bragði í því og finnst vera jákvætt er að þeir einstaklingar — af því að á undanförnum árum hefur heimurinn minnkað og fólk flust mikið á milli landa, bæði hingað og okkar fólk farið til útlanda — ef ég skil frumvarpið rétt þá er það jákvætt að þeir einstaklingar geti farið eftir ákveðnum reglum og fengið heilbrigðisþjónustu nálægt aðstandendum sínum, ef ég skil þetta rétt.

Það er eitt sem ég sé að haft hefur verið samráð við ákveðna aðila á lokametrunum við gerð frumvarpsins, má nefna að talað er um samtökin Einstök börn og ýmsa aðra aðila, einhver samtök. Nær þetta frumvarp til einstaklinga sem eru með ákveðna sjúkdóma og þurfa læknisþjónustu utan lands sem er ekki veitt hér heima? Af því að við höfum fengið svolítið spurningar út í það: Hvernig er niðurgreiðslum háttað til þeirra einstaklinga sem bera einhverja sjúkdóma, þurfa læknismeðferð sem er ekki veitt á Íslandi? Eru önnur kerfi fyrir þá einstaklinga?