144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

636. mál
[16:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er ekki stórt en það felur í sér að við erum að fara inn á nýjar brautir. Við erum að auka aðgengi Íslendinga að heilbrigðisþjónustu í Evrópu og má segja að frumvarpið eigi uppruna sinn í því að mörg Evrópuríki eiga landamæri hvert að öðru. Verið er að auðvelda íbúum að sækja sér læknisþjónustu í nágrannaríkjum sínum. Ísland sem situr ekki við borðið þegar verið er að semja tilskipanir og reglugerðir sem þessar og hafði því takmörkuð áhrif á þetta mál sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur bera nú hér á borð fyrir okkur og er það nokkuð kyndugt.

Við jafnaðarmenn, og því er náttúrlega ekki að leyna að við erum mjög hlynnt auknu samstarfi þjóða á milli, tökum fullveldi og sjálfstæði landsins það alvarlega að við hefðum viljað hafa meira um það að segja hvað við þurfum að innleiða hér í íslensk lög og með hvaða hætti.

Ég ætla að segja það, hæstv. forseti, að á þessari stundu hef ég ákveðnar áhyggjur af málinu. Við erum með heilbrigðiskerfi sem er búið að vera í niðurskurði, ekki bara eftir hrun þó að byrjað sé að bæta í eitthvað heldur í raun og veru frá aldamótum. Það logar allt í verkföllum. Um þessar mundir er Landspítalinn nánast óstarfhæfur í annað sinn á innan við ári vegna verkfalla starfsmanna og biðlistar lengjast og þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu eykst, og þá erum við um leið að opna á þessar gáttir. Jú, það er gott að fólk geti sótt sér heilbrigðisþjónustu ef það fær hana ekki hér á landi. En hverjir eru það sem munu geta sótt slíka þjónustu? Það er ekki fólkið sem er núna að leggja fram kröfuna um 300 þús. kr. lágmarkslaun, því það fær ekki greidda flugmiðana til að sækja þessa þjónustu erlendis. En það getur, ef það er í færum til þess að sækja þjónustu utan landsteinanna, fengið endurgreitt sem nemur því sem kostnaðurinn hefði verið hér innan lands.

Ég er satt best að segja í ljósi þess að þetta fór nýlega í gegnum þingið sem EES-mál — hér vantar ekki viljann til að leggja fram mál, það hafa nú ekki verið svona snarir snúningar hjá ráðherrum í ýmsum öðrum málum, en hérna liggur augljóslega mikið á og við erum að veita mjög víðtækar reglugerðarheimildir til ráðherra til að móta leikreglurnar um þessar breyttu áherslur. Við í velferðarnefnd munum náttúrlega fara mjög vel yfir það.

Í máli ráðherra kom fram í rauninni að ekki er búið að móta með hvaða hætti á að innleiða þetta. Það er líka þannig að með því að samþykkja þetta erum við að setja það vald í hendur ráðherra með reglugerð hvernig íbúar landsins geti nýtt sér þessa þjónustu.

Ég kom eiginlega hingað upp til að lýsa því yfir að í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í heilbrigðiskerfinu, í ljósi þess að heilsa er verri eftir því sem tekjurnar eru lægri, og í ljósi þeirra hörðu kjaradeilna bæði innan heilbrigðiskerfisins en ekki síst utan, þá tel ég bara mjög vafasamt að taka þátt í því að veita svo víðtækar heimildir til heilbrigðisráðherra sem er ekki tilbúinn til að segja okkur á þessari stundu hvert hann hyggst fara með þetta mál.