144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það, og Ólafi Dýrmundssyni, að menn þurfa að ganga mjög varlega um þessar gáttir þegar þeir eru að velta fyrir sér að opna fyrir innflutning á dýrum, jafnvel þó að það séu fósturvísar. Þó held ég að öll vísindaleg rök hnígi til þess að hægt sé að gera það þannig að næsta tryggt sé og það er grundvöllur þessa frumvarps.

Ég vil hins vegar fullvissa hv. þingmann um það að í hvert skipti sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur gott mál þá stend ég þétt að baki honum. Það eina sem ég hef við þetta mál að athuga er það að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa flutt þetta fyrr. En það má þá skilja hv. þingmann á þann veg að hún telji að hæstv. landbúnaðarráðherra sýni ekki nægilega mikla varkárni í þessu frumvarpi og að hv. þingmaður muni þá ekki styðja það nema því verði töluvert breytt í úrbótaátt í nefnd.