144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um innflutning dýra, þ.e. erfðaefni holdanautgripa. Ég segi nú eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ég hreifst mjög af ræðu hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur hér áðan, ungum bónda sem veit hvað hún syngur og hefur þekkingu á þessum málum. Ég held að það sé full ástæða til þess að taka eftir þeim orðum hennar að við megum ekki slaka of mikið á varðandi aðgæslu á innfluttum erfðaefnum nautgripa og þurfum að gera miklar kröfur.

Ég er ein af þeim mörgu sem vilja standa vörð um íslensku kúna og íslenska kúakynið, en eins og hefur komið fram þá er ekki verið að ræða hér um erfðaefni mjólkurkúa. Ég tel að það sé samt ákveðin hætta fólgin í því, eins og einn góður dýralæknir sagði við mig, að frjálsar ástir gætu líka verið einhvers staðar úti á túni og þá gæti ýmislegt gerst, (Gripið fram í: Kannski á Vestfjörðum.) jafnvel á Vestfjörðum. Það er að ýmsu að gæta varðandi hættu á sjúkdómum og öðru.

Mér fannst athyglisvert það sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, að það væri í raun ekki mikill hvati til aukinnar nautakjötsframleiðslu í þessu frumvarpi.

Svo að ég ljúki því sem snýr að íslensku kúnni þá er íslenska kúakynið trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem hefur haldist lítt eða ekki blandað öðrum kynjum svo lengi, allt frá landnámsöld. Ég tel því mjög mikilvægt að við stöndum vörð um þá fjölbreytni og sérstöðu íslenska kúakynsins.

Hæstv. ráðherra kom inn á upphaf þessa máls, að það hefði verið til umræðu mjög lengi innan stéttarinnar. Það kemur fram í athugasemdum við þetta lagafrumvarp, um að flytja inn þessi erfðaefni, að árið 2011 hafi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipað starfshóp um nautakjötsframleiðslu og stöðu holdanautastofnsins á Íslandi. Niðurstaða hópsins varð sú að talsverðir möguleikar væru til eflingar nautakjötsframleiðslu hér á landi og innflutningur nýs erfðaefnis úr holdanautgripum væri þar lykilatriði. Þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skipaði starfshóp í framhaldinu til að rýna þessa skýrslu og koma með tillögur að aðgerðum til að efla nautakjötsframleiðslu og styrkja stöðu holdanautastofnsins á Íslandi. Hópurinn skilaði skýrslu árið 2013. Niðurstöðurnar voru samhljóða meginniðurstöðu fyrri hópsins um stöðu holdanautastofnsins, að ekki væri unnt að bæta holdanautakynin sem notuð eru til hjarðbúskapar og einblendingsræktunar án innflutnings á nýju erfðaefni. Lagt var til að gerð yrði ítarleg áhættugreining varðandi fyrirkomulag innflutnings á erfðaefnum. Ráðuneytið bað Matvælastofnun um að gera áhættugreiningu á innflutningi á erfðaefnum holdanauta. Niðurstaða greiningarinnar varð sú að litlar líkur væru á því að smitefni bærust hingað til lands við innflutning á erfðaefni frá Noregi. Þar kom líka fram að öllum innflutningi fylgdi áhætta — það er það sem hefur verið nefnt hér — og að smitefni gætu borist með erfðaefnum. Í áhættugreiningunni er bent á að ef smitefni berst til landsins getur það vissulega haft miklar afleiðingar. Sjúkdómsstaða íslenskra búfjárstofna er mjög góð og margir sjúkdómar sem eru landlægir í nágrannalöndunum þekkjast ekki hér á landi. Ég held að það sé landbúnaðargeiranum mjög mikilvægt og að lágmarka hættu á því að smitsjúkdómar berist hingað til lands við innflutning erfðaefna.

Ég ætla að koma aðeins inn á samantekt úr skýrslunni um áhættumat sem Matvælastofnun gerði vegna innflutnings á nautasæði. Þar segir að samantekt á niðurstöðum 16 smitefna hafi verið tekin fyrir í þessu áhættumati. Niðurstaða mats á líkum á því að þau bærust með sæði frá Geno Global Ltd. í Noregi er sú sama fyrir þau öll. Líkurnar eru taldar litlar. Við mat á afleiðingum þess að smitefnin bærust hingað til lands voru tvö smitefnanna talin hafa litlar afleiðingar í för með sér, þrjú þeirra nokkrar og ellefu miklar. Við endanlegt mat á áhættu flokkuðust því fimm smitefnanna í lágan áhættuflokk, ellefu í miðlungs en ekkert í háan. Í lokin er nefnt að þetta áhættumat hafi að mestu leyti verið unnið af starfsmönnum Matvælastofnunar og lesið yfir af mörgum innan stofnunarinnar. Mælt er með því að skýrslan verði send hagsmunaaðilum og sérfræðingum til umsagnar, t.d. á tilraunastofu Háskóla Íslands að Keldum.

Ég tel að það þurfi að gæta mikillar varúðar. Eins og ég skil þetta er verið að slaka töluvert á kröfum varðandi einangrun dýra, eins og var í Hrísey. Í athugasemdum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Dýr sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni má hins vegar aldrei flytja af sóttvarnastöð.“

Ég skil þetta þannig að það sé eins og það er í dag en að einhverjar breytingar verði á því. Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að flytja framangreind dýr úr einangrunarstöð að fengnu leyfi yfirdýralæknis þegar tryggt þykir að þau séu ekki haldin neinum sjúkdómum. Innflutt erfðaefni svína má þó aldrei flytja úr einangrunarstöð.“ — Það er þá sér á báti.

Það kemur fram að með þessu frumvarpi sé stefnt að því að skapa aðstöðu til þess að unnt verði að flytja inn nýtt erfðaefni til að efla holdanautastofninn og auka nautakjötsframleiðslu, sem er vissulega þörf á, ég get alveg tekið undir það. Það er bara eðlilegt að sú grein hafi möguleika á að vaxa og dafna og þjóna innanlandsmarkaði vel, en við þurfum samt að gæta varúðar í þessu máli. Nefndin á auðvitað eftir að fara yfir málið og kalla til sín sérfræðinga á þessu sviði og senda út beiðni um umsagnir. Ég veit að það verður farið vandlega yfir málið. Það er ekki eins einfalt og það lítur út við fyrstu sýn miðað við orð hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur hér áðan. Til þess erum við í atvinnuveganefnd, löggjafarnefnd, að bæta það sem kemur hingað inn í formi frumvarpa. Ég tel að við eigum að skoða vel hvort það þurfi að þrengja þetta með einhverjum hætti til þess að tryggja að áhætta á sjúkdómum í kjölfar innflutnings á þessu erfðaefni holdanautgripa verði í lágmarki.

Í frumvarpinu kemur líka fram að gert sé ráð fyrir skýrari og afmarkaðri gjaldtökuheimild fyrir innflutningseftirlit Matvælastofnunar með lifandi dýrum og erfðaefnum, auk þess sem hægt verði að innheimta gjald fyrir skjalaskoðun og aðra umsýslu varðandi innflutninginn. Það er nokkuð sem liggur beint við.

Annars væri ágætt að fá að heyra frá ráðherra hvort það sé einhver hætta á því að með innflutningi á þessum erfðaefnum verði einhver blöndun við íslenska kúakynið. Ég vildi gjarnan fá að heyra meira um það og hvaða viðvörunarbjöllur hringja í þessu máli eða hvort ráðherra telji að ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur af sjúkdómaáhættu, að hættan sé hverfandi og þetta sé bara til þess að efla nautakjötsframleiðslu í landinu til að anna eftirspurn á mörkuðum.

Ég læt þetta duga að sinni og hlakka til að fjalla um málið í atvinnuveganefnd.