144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:53]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan þá sé ég engan hvata í þessu frumvarpi. Hv. þingmaður kom inn á hinar frjálsu ástir, ég meina, auðvitað getur orðið blöndun. Hvaða kýr eiga að ganga með erfðaefnið? Stofninn er ekki orðinn það stór. Hvaða reglur eiga að gilda um kýr sem eru ekki hæfar til þess að mjólka og eru kannski notaðar til þessa? Nú hafa reglur um aðbúnað holdanauta verið hertar. Það er spurning hvort þeir sem eru í greininni séu undir það búnir að starfa eftir þeim og hafi aðstöðu til.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái einhvern hvata í þessu frumvarpi, hvort hún sjái að verið sé að bæta aðgengi nýliðunar í greinina og aðbúnað þeirra sem í greininni eru eða hvort hv. þingmaður telji að frumvarpið veiki stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart innflutningi á öðrum dýrum og jafnvel landbúnaðarafurðum.