144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:57]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þetta er einmitt það sem ég tel vera gallann á þessu frumvarpi. Þarna erum við að tala bara hreint og beint um sæði, við erum ekki að tala um að bændur geti haldið áfram að hafa holdanautgripi í bröggum úti á miðju túni og gefið þeim einstaka rúllur og moð. Við erum að tala um að þetta eigi að vera einhver stórefling á nautakjötsframleiðslu í landinu. Ég sé heldur ekki að það sé verið að auðvelda nýliðun í greininni því að þeir sem hafa komið að þeim úttektum sem vitnað er í í frumvarpinu eru þeir sem fyrir eru í greininni og standa nú þegar betur að vígi. Ég tel að við gerð þessa frumvarps hefði einnig þurft að tala við þá sem yngri eru og heyra þeirra sjónarmið, hvernig þeir sjái þetta fyrir sér.

Afurðastöðvar, við getum ekki haft áhrif á þær beint hér á hinu háa Alþingi. Ég tel að allt of mörgu sé enn ósvarað. Ég tel að sumar stoðir í frumvarpinu séu það veikar í sambandi við sóttvarnir og eftirlit að ég verði að standa með sannfæringu minni í því efni.