144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég virði hv. þingmann fyrir að standa með sannfæringu sinni. Ég held að okkur sé öllum hollt að gera það ætíð. Það væri auðvitað mjög fróðlegt að fá umsögn ungra bænda um akkúrat þetta mál og heyra viðhorf þeirra til þess, hvað þeir segja um það hvernig væri hægt að gera, eins og mér heyrist á hv. þingmanni, eitthvað meira en að flytja bara inn eitt og sér þetta erfðaefni úr norskum holdanautgripum, það þurfi svo margt annað til svo að greinin geti vaxið innan lands, eins og ég heyri á máli hv. þingmanns. Hætta sé á því að þetta verði til þess að styrkja og efla þá sem eru öflugir fyrir í greininni en þeir sem þurfi á stuðningi að halda og hefðu þurft eitthvað meira til en þetta eitt og sér séu kannski staddir á sama stað og hafi ekki mikla möguleika til að efla og auka framleiðslu sína. Það er umhugsunarvert hvort þetta frumvarp sé svolítið sérsniðið fyrir þá sem eru sterkir fyrir í greininni en ekki þá sem hafa áhuga á að eflast í greininni og þurfa meira til.

Ég er tilbúin að taka þessa hlið á málinu til umræðu í atvinnuveganefnd við þá sem við fáum til þess að fjalla um það, sem virðist kannski við fyrstu sýn vera einföld aðgerð en á sér margar hliðar og er langt frá því að vera neitt einföld.