144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Loksins tekur Alþingi Íslendinga til umræðu alvörumál. Ég tel að þetta sé mál sem skipti landbúnaðinn miklu. Hér er um að ræða frumvarp sem ég tel að horfi til heilla í íslenskum landbúnaði. Ég er einn af þeim sem vilja styrkja hann og hef kannski stundum legið undir ámæli í mínum flokki fyrir að vera allt of dyggur liðsmaður hans.

Ég vil samt í upphafi máls míns taka skýrt fram að ég er alveg á sömu línu og þær hv. þingkonur, stallsystur mínar, sem hér hafa talað að því leyti að ég tel að innflutningur á lifandi húsdýrum sé alls ekki heillavænlegur. Ég er á móti honum. Ef við horfum yfir söguna blasir það við að hér hafa húsdýrakyn verið meira og minna án tengsla við umheiminn frá því að land var numið. Það hefur margvíslegar afleiðingar, m.a. þær að þau hafa ekki komist í snertingu við ýmiss konar bakteríur og veirur sem stofnar í öðrum löndum hafa byggt upp mótstöðu og þol gegn. Það leiðir til þess að íslensk húsdýrakyn eru veikari fyrir ef í þau berast einhvers konar smitefni. Það höfum við séð af sögunni, eins og var rifjað hér upp af hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur. Sauðfjárræktin hefur ekki farið varhluta af því í gegnum síðustu aldir.

Þess vegna vil ég segja það alveg skýrt að þegar ég á sínum tíma hafði forgöngu um það að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu þá var það algjörlega klárt af okkar hálfu sem að því stóðum að þar var dregin lína í sandinn. Það var alveg skýrt tekið fram af okkar hálfu að ekki yrði fallist á innflutning á lifandi dýrum. Og bara til að hafa sagt það og rifjað upp hér, þá er rétt að það komi fram að í mars 2013, að mig minnir, kom yfirlýsing frá stækkunarstjóra Evrópusambandsins eftir fund okkar í Brussel um að hann virti þetta sjónarmið og teldi það eðlilegt. Það þýðir ekki að við samningaborðið hafi legið algjörlega klárt og kvitt fyrir að Evrópusambandið mundi ekki leggja fram slíka kröfu en hins vegar bendir það til þess að menn hafi skilning á þessum efnum, líka þeir sem erlendis eru, líka þeir sem horfa til Íslands. Sérfræðingar þar gera sér grein fyrir því að íslensku kynin eru öðruvísi og þau hafa ekki byggt upp gegnum aldir þá mótstöðu sem húsdýrakyn í öðrum löndum hafa gert.

Að þessu sögðu vil ég segja að ég tel hins vegar að það gegni öðru máli um það sem hér er lagt til. Frumvarpið gengur út á það að leyfa innflutning á sæði og erfðaefni sem ég túlka sem fósturvísa. Við höfum yfir að ráða tækni í dag sem getur séð til þess að hægt er að bægja frá að verulegu leyti en kannski ekki öllu leyti líkum á einhvers konar smiti. En ég er hins vegar, eins og margir aðrir góðir tæknikratar, þeirrar skoðunar að menn eigi að hlusta á sérfræðinga í þessum efnum. Og ef það er svo að bæði bændur og sérfræðingar landbúnaðarráðuneytisins komast að þeirri niðurstöðu að frumvarpið búi til farveg sem bægi þessari hættu frá dyrum þá er ég reiðubúinn til að fallast á þau rök.

Ég tek eftir því svo sem, svo að öllu sé til haga haldið, að greint er frá því í frumvarpinu að meðal þeirra sem leitað var eftir umsögnum frá var Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Í V. kafla á bls. 4 í frumvarpinu kemur ekki fram að sú ágæta stofnun hafi skilað umsögn. Ég leyfi mér þá að órannsökuðu máli að draga þá ályktun að Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum hafi ekki séð ástæðu til þess að gera athugasemd við frumvarpið, en það kann að vera rangt hjá mér. Ég tel að hæstv. ráðherra mundi nú ekki hafa skotið sér undan því að greina frá því ef um einhvers konar neikvæða umsögn hefði verið að ræða þar.

Hér hafa ýmis rök verið talin til gegn frumvarpinu. Ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur að menn verða að ganga sem varlegast um dyr í þessum efnum. Það kann vel að vera að það sé rétt við umfjöllun málsins í hv. atvinnuveganefnd að slá varnir fastar í gadda. Frumvarpið lætur lítið yfir sér og er stutt. Þar eru í reynd varnirnar fólgnar í því að Matvælastofnun, yfirdýralækni er heimilt að veita innflutningsleyfið í krafti reglna sem á eftir að setja. Mér finnst ekkert að því að hv. þingmenn sem um þetta fjalla óski eftir að fá að sjá einhvers konar skapalón að þeim reglum. Það kann vel að vera að það eyði efasemdum einhverra.

Líka má nefna það í þessu sambandi að hér er gert ráð fyrir að farið verði með þennan innflutning með nákvæmlega sama hætti og þegar er fyrir hendi gagnvart svínum. Ég minnist þess að ekki fyrir mjög löngu síðan, nokkrum árum, samþykktum við í þessum sal lög sem leyfðu nákvæmlega þetta gagnvart svínarækt. Auðvitað er skammur tími liðinn og kannski er ekki hægt að segja í því ljósi að ótvíræð reynsla liggi fyrir, en þar skoðuðu menn málið, komust að þeirri niðurstöðu og ég held ég megi segja að það hafi ekki leitt til neins stórfellds skaða.

Að þessu sögðu vil ég sömuleiðis hafna þeirri röksemd sem kom fram, að minnsta kosti hjá hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, að þetta veiki með einhverjum hætti varnir gegn innflutningi á erlendum matvælum, erlendu kjöti. Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að hann er þegar til staðar. Það er til dæmis í vaxandi mæli verið að flytja inn nautakjöt. Og af hverju er það? Það er vegna þess að vaxandi misræmi er á milli framleiðslu og neyslu, þó að í ljós komi, eins og greint er frá í greinargerð með frumvarpinu, að frá árinu 2005 hefur bæði framleiðsla og neysla á nautakjöti aukist, en neyslan hefur aukist hraðar. Það leiðir til þess að á fyrri helmingi síðasta árs fluttu menn hingað inn nærfellt, ef ég man rétt, 600 tonn af erlendu nautakjöti. Það má því snúa þessari röksemd við og segja að með því að efla íslenska framleiðslu á nautakjöti með þessum hætti er frekar verið að stemma stigu við innflutningi á kjöti af þessu tagi. Tek ég þá skýrt fram að ég geri skýran greinarmun á innflutningi á lifandi dýrum og hins vegar innflutningi á kjöti svo það liggi algjörlega ljóst fyrir.

Ég tel því ekki að þetta séu sterk rök. Hin rökin sem nefnd eru finnast mér nokkuð fjarskyld umræðuefninu eða frumvarpinu. Þau felast í því að í frumvarpinu sjáist hvergi neitt sem styrki nýliðun í greininni og vitaskuld er það rétt. En ég held hins vegar og á erfitt með vegna þess að báðir þeir hv. þingmenn sem hér töluðu á undan töluðu um að þetta gæti hugsanlega styrkt stöðu þeirra sem fyrir eru og sterkir eru á markaðnum að finna botn fyrir þeim rökum í ljósi þess að markaðurinn er að kalla á meira. Það er auðvitað andlag innflutnings. Markaðurinn er að biðja um meira kjöt og við vitum að menn vilja íslenskt nautakjöt, sjáum það á því hvernig sölutölur hafa aukist. Þess vegna tel ég að þó að þessum stoðum verði steypt undir framleiðslu á nautakjöti á Íslandi þá sé ekki með neinu móti hægt að segja að verið sé að draga úr stöðu þeirra sem eru kannski ekki sterkir á markaði. Þeir geta selt sína framleiðslu eftir sem áður á meðan eftirspurnin er svona rík, en það kann vel að vera að hv. þingmaður sjái þá í hillingum einhverja framtíð þar sem framleiðslan er meiri en neyslan á Íslandi. Herra forseti. Ég vil þá trúa hæstv. forseta fyrir því að ég bíð eftir slíkri tíð vegna þess að ég tel að í framtíðinni muni, ef íslenskur landbúnaður ber gæfu til þess að haga þannig sínum málum, bæði afurðavinnslunni og markaðsmálum, verða hægt að selja íslenskt nautakjöt á góðu verði á erlendum mörkuðum.

Kjöt sem búið er til með þeim framleiðsluháttum sem tíðkast hér á landi, sem er í versta falli hægt að kalla vistvæna, og sumir mundu segja að stappi mjög nærri því að vera lífræn ræktun, þó að ég viti vitaskuld að ekki er hægt að beita þeirri skilgreiningu á íslenskt nautakjöt. Á þeim grunni tel ég sem sagt að það muni finnast skýr grundvöllur til þess að flytja út íslenskt nautakjöt. Og þeir sem hafa efasemdir um það ættu bara að tala við þá ágætu frumkvöðla sem hafa staðið í því að reyna að markaðssetja íslenskt kjöt á erlendum mörkuðum með alveg ágætum árangri. Það liggur alveg ljóst fyrir að þeirra skoðun er sú að ekki yrði erfitt að selja íslenskt nautakjöt, sem framleitt er við þessi frábæru skilyrði á Íslandi, á erlendum mörkuðum.

Að þessu sögðu er ég þeirrar skoðunar, á sama tíma og ég tek undir það með þeim sem hér hafa áður tekið þátt í umræðunni, að við skulum ganga gætilega um. Hv. þingmönnum sem sitja í fagnefndinni ber að fara rækilega yfir þetta mál og mér finnst alveg koma til greina að það verði skýrt frekar í breytingartillögum frá nefndinni hvernig reglurnar eiga að vera. En þau tvenn rök sem hér hafa einkum verið flutt gegn þessu finnast mér ekki vera þess eðlis að hægt sé að fallast á að frumvarpið með einhverjum hætti veiki stöðu bænda sem fyrir eru eða þeirra sem ekki hafa kannski þá aðstöðu sem hv. þingmaður taldi að mundi vera krafist við framleiðslu á holdanautum í framtíðinni. Og enn síður held ég að hægt sé að rökstyðja það að þetta veiki varnir gegn innflutningi á matvælum af þessum toga. Nú hefur það komið fram í ræðu minni að ég er ekki sammála hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um það efni, en ef ég horfi á þetta frá sjónarhóli þeirra röksemda sem hún þreytti hér af miklum þrótti þá tel ég eigi að síður að það vanti hljómbotn fyrir þau rök.