144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:13]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann sagði að ég hefði farið með röksemdir um að þetta mundi veikja stöðu Íslands í innflutningi. Ég velti því upp sem spurningu til hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur hvort hún teldi að þetta mundi veikja málflutninginn, þó svo að ég hafi ekki meira fyrir mér.

Einnig það að ég hefði talað um að ekkert væri um nýliðun, þá var ég jafnframt að tala um það að mér finnst að helstu rökin með því að við eigum að fara í innflutning á erfðaefni séu þau að við séum að styrkja nautakjötsframleiðslu. En ég sé heldur ekki umhverfi fyrir þá sem eru í greininni í dag, ég sé engan hvata. Það þarf líka að vera hvati, það er ekki nóg að koma bara með erfðaefni, því að eins og staðan er í dag, ég veit ekki hvort hv. þingmaður heyrði það hérna áðan, þá eru menn að losa sig við nautkálfa við fæðingu hvort sem þeir skjóta þá bak við fjós eða senda þá í sláturhús, því að það borgar sig ekki að ala þá upp. Það er það sem ég er að tala um. Þó svo að við komum með erfðaefni til landsins þá sé ég ekki að það sé hvatinn til þeirrar aukinnar nautakjötsframleiðslu sem frumvarpið er að miklu leyti byggt á að muni fara af stað.

Þá hef ég líka aðra spurningu, sem sagt hvort sláturhúsin hérlendis séu í stakk búin til að taka á móti þeirri aukningu, því að í dag er erfitt að koma nautum í slátrun. Maður þarf að bíða með gripi heima á búunum. Spurningin er því: Erum við í stakk búin fyrir þá miklu aukningu sem við teljum að verði?