144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:41]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Til að bregðast við þeirri spurningu sem hann endaði mál sitt á þá held ég — eða ég held ekkert, ég mun spyrja umsagnaraðila um það þegar þeir mæta fyrir hv. atvinnuveganefnd hvort þeir hafi velt því fyrir sér hvort ekki væri alveg eins gott að ganga almennilega frá löggjöfinni, á þann hátt að fyrir liggi góðar og gildar reglur um það. Með því er ég ekki að boða að flutt verði inn mjólkurkúakyn í fyllingu tímans, því verður stéttin sjálf að svara, ég ætla hvorki Alþingi né atvinnuveganefnd Alþingis að svara því.

Af því að við förum í ræður og hv. þingmaður nefndi möguleg markaðstækifæri nautakjöts á erlendum markaði vil ég segja að það þarf mjög margt að breytast, og hann nefndi það, í slátrun og vinnslu til að við getum nýtt okkur þau tækifæri að miklu leyti. Sú staða hefur verið uppi í mjög langan tíma á Íslandi að afurðaverð til bænda, hvort sem við horfum á lambakjöt eða nautakjöt, hefur verið lægra eða mjög svipað til okkar íslensku bænda og í nágrannalöndum en útslátturinn — við verðum ósamanburðarhæfari, ef það má orða það þannig, herra forseti, þegar við höfum farið í gegnum vinnsluna og í gegnum slátrunina og ég tala ekki um í gegnum verslunina þar sem þessar kostnaðartölur breytast stórkostlega. Því vil ég á móti spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson og biðja hann að bregðast við: Hvernig getum við tæklað þann hluta? Þarna eru atriði sem keyra okkur eiginlega út í skurð í öllum samanburði en eftir sitja íslenskir bændur sem hafa í langan tíma, a.m.k. í lambakjötinu, haft mjög lágt afurðaverð samanborið við kollega okkar í öðrum löndum.