144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:44]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur leikið marga háskaleiki. Hann hóf andsvar sitt hér áðan á því að tala um að hann væri kominn á hálan ís þegar hann væri bæði orðinn sammála landbúnaðarráðherra og sjálfstæðismönnum. Svo bætti hann um betur og fór að rifja upp fortíð sína sem formaður Samfylkingarinnar, að hafa lagt fram róttækar tillögur um uppskiptingu verslunarvelda. Ég held reyndar að það séu mjög athyglisverðar tillögur, ég hef í langan tíma haldið að það séu aðgerðir sem við þurfum á að halda til að skerpa hér mjög á verðmyndun og gagnsæi verðmyndunar.

Áður en við ákveðum að flytja inn nýtt kúakyn, herra forseti, þarf að gera mjög marga og stóra hluti. Skoðun mín á því hvort flytja eigi inn nýtt kúakyn eða ekki — ég sé marga kosti við það að flytja inn mjólkurkúakyn. Ég er ekki þar með að segja að ég ætli að slást fyrir því, en við eigum mörg verðmæti í íslenska kúakyninu sem við verðum þá í það minnsta að taka alvöruumræðu um, þó ekki væri nema þá umræðu (Forseti hringir.) hvernig við ætlum að vernda það kúakyn, sem er þá samkvæmt alþjóðaskilgreiningum í útrýmingarhættu, og okkur ber skylda að gæta þeirra hagsmuna.