144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:50]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú bara að játa strax að ég get ekki úttalað mig af mikilli nákvæmni um framlegðartölur. Við erum að tala um svolítið aðra gerð af nautakjöti en fellur af íslenskum kynjum, mun holdfylltari gripi. Sumir segja það betra kjöt en það er matsatriði. Þetta er sérstakt kjöt og það er eftirsóknarvert að hafa það hér.

Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns gæti það tekið tvö og hálft til þrjú ár með gömlu, hefðbundnu Hríseyjaraðferðinni, kostnaður upp á 120–140 millj. kr., sem því mundi fylgja, þannig að það tæki þá verulega langan tíma fyrir bændur að fá nýtt erfðaefni.

Ég er alls ekki að leggja það til með varnaðarorðum mínum að við þurfum að feta þá slóð, ég tek það enn og aftur skýrt fram. Ég vil aftur á móti skilja hvort þessi leið sé nægilega varfærnisleg að mati sérfræðinga (Forseti hringir.) eins og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum varðandi aðgæslu sem við þurfum að sýna gagnvart íslenskum búfjárstofnum.