144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

dýrasjúkdómar og varnir gegn þeim.

644. mál
[18:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum, mál nr. 644 á þskj. 1107.

Með frumvarpinu er verið að færa leyfisveitingu til Matvælastofnunar frá ráðuneytinu. Einnig er verið að breyta ákvæði laganna um innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins.

Í 1. mgr. 10. gr. laganna er listi yfir þær vörur sem óheimilt er að flytja inn til landsins. Innflutningstakmörkun þessi er til þess að koma í veg fyrir að dýrasjúkdómar berist til landsins. Samkvæmt núgildandi ákvæði hefur ráðherra verið heimilt að veita undanþágur til innflutnings á þeim vörum sem taldar eru upp í a–e-lið 1. mgr. 10. gr., að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og að fengnum meðmælum Matvælastofnunar. Samkvæmt núgildandi ákvæði laganna þurfa innflytjendur sem sækja um leyfi til að flytja inn fyrrgreindar vörur að senda inn beiðni til ráðuneytisins og í framhaldinu hefur beiðnin verið send Matvælastofnun til umsagnar. Að fengnum meðmælum stofnunarinnar hefur ráðuneytið gefið út leyfi til innflutnings. Árið 2014 veitti ráðuneytið um 350 leyfi til innflutnings á hráu kjöti auk þess að árita um 350 aðflutningsskýrslur vegna kjötinnflutnings.

Með frumvarpi þessu er lagt til að umsóknarferlið verði einfaldað og Matvælastofnun heimilt að veita leyfi til innflutnings á þeim vörum sem taldar eru upp í a–e-lið 1. mgr. 10. gr. laganna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Er lagt til að allt ferlið færist til stofnunarinnar án aðkomu ráðuneytisins. Aðkoma ráðuneytisins verði því óþörf. Þessi tilhögun mun spara stjórnsýslunni og innflytjendum tíma og fjármuni og gera kerfið einfaldara og skilvirkara. Þessi lagabreyting er í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið. Snýr hún fyrst og fremst að innra skipulagi stjórnsýslunnar. Hún hefur í för með sér betri stjórnsýslu því ákvarðanir sem hafa hingað til verið teknar á einu stjórnsýslustigi verða teknar á lægra stjórnsýslustigi og þær því kæranlegar til ráðuneytisins. Við gerð frumvarpsins leitaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar. Stofnunin telur breytinguna vera til bóta.

Aðrar breytingar á ákvæðinu eru orðalagsbreytingar til að samræma orðalag ákvæðisins og gera það skýrara. Með frumvarpi þessu er einnig lagt til að innleiðingarheimild í 29. gr. a verði breytt. Breytingin er nauðsynleg því gildandi lagaákvæði veitir ekki heimild til ráðherra að innleiða nýjar reglugerðir í landsrétt í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og því er þörf á að uppfæra heimildarákvæði þetta til að ráðherra hafi slíka heimild. Ákvæðið er orðað með almennum hætti svo ekki verði þörf á lagabreytingum í hvert sinn sem nýjar reglur um þessi mál verða settar á vettvangi Evrópusambandsins. Í texta ákvæðisins í frumvarpinu er talað um reglugerðir Evrópusambandsins til þess að heimildin nái jafnt til reglugerða Evrópuþingsins sem og -ráðsins og reglugerða framkvæmdastjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.